Steinunn Arnardóttir, nýr sérfræðingur á Landspítala í almennum lyflækningum og innkirtla- og efnaskiptalækningum, vill með fjarlækningum efla þjónustu við fólk með sykursýki. Steinunn er nýkomin heim úr sjö ára sérfræðinámi í Uppsala í Svíþjóð. Hún tók þar þátt í nýsköpunarverkefni sem miðaði að því að auðvelda með fjarlækningum aðgengi yngra fólks með sykursýki að sérfræðingum, til viðbótar hefðbundinni göngudeildarþjónustu. Þar notar fólk til dæmis smáforrit (app) í samskiptum við lækninn. Meðal annars þannig er leitast við að heilbrigðisþjónustan sé meira á forsendum sjúklingsins en læknisins.