Kæra samstarfsfólk!
Ný ríkisstjórn hefur tekið við stjórnartaumunum og í samræmi við umræður í aðdraganda kosninga eru heilbrigðismálin sögð vera í forgangi. Ég óska nýjum heilbrigðisráðherra, Óttarri Proppé, velfarnaðar í starfi og bind vonir við samstarfið á kjörtímabilinu. Um leið er ástæða til að óska Kristjáni Þór Júlíussyni, fráfarandi ráðherra heilbrigðismála og núverandi mennta- og menningamálaráðherra, velfarnaðar og þakka samstarfið síðustu ár. Við munum vafalaust eiga áframhaldandi samstarf enda sinnir Landspítali miklu hlutverki á sviði mennta og vísinda í samstarfi við Háskóla Íslands og fleiri skóla. Það hlutverk eykst ár frá ári en á nýliðnu ári sinntu 1.755 nemar hluta síns náms á Landspítala, samanborið við 1.193 árið 2010.
Í stjórnarsáttmálanum er m.a. vikið að uppbyggingu Landspítala við Hringbraut og er rétt að fagna því að fyrri áætlanir um að meðferðarkjarni verði risinn árið 2023 standa. Þá er tiltekið að aukinn þungi verði settur í uppbyggingu í öldrunarþjónustu, sérstaklega hvað varðar heimahjúkrun og hjúkrunarheimili. Markmið ríkisstjórnarinnar um háskóla snýr að því að efla samvinnu og samstarf íslenskra háskóla- og vísindastofnana og að skólarnir standist alþjóðlega samkeppni. Þá má vænta þess að myndarlega verði stutt við rannsóknir og þróun í landinu.
Afar mikilvægt er að þessara áforma sjái stað strax á fyrstu mánuðum ríkisstjórnarinnar og má raunar vænta þess enda mun ríkisfjármálaáætlun, sem endurspeglar raunveruleg áform stjórnarflokkana, koma fram þann 1. apríl næstkomandi.
Eins og flestum er kunnugt er mikið álag á spítalanum. Aðstreymi sjúklinga er mikið og hefðbundin tregða við útskrift þeirra sem búnir eru að fá þjónustu á Landspítala og þurfa stuðning annars staðar. Í dag eru 95 einstaklingar á spítalanum (að Vífilsstöðum meðtöldum) sem bíða eftir hjúkrunarheimili. Við þessar aðstæður skapast miklar annir á deildum spítalans og það er lykilatriði að öryggi sjúklinga sé alltaf í fyrirrúmi. Stöðluð og markviss samskipti okkar sem sinnum sjúklingum er afar mikilvægur liður í aukni öryggi sjúklinga. Rót alvarlegra atvika sem verða á sjúkrastofnunum er of oft að finna í samskiptabrestum og því er nauðsynlegt að beita öllum tiltækum ráðum til að einfalda árangursrík samskipti. SBAR er samskiptatækni sem byggir á gagnreyndri þekkingu og hafa heilbrigðisstofnanir víða um heim tekið hana upp. Innleiðing SBAR hefur gengið vel á Landspítala og má nú m.a. finna einingu í Heilsugátt fyrir skráningu. Í meðfylgjandi myndbandi er þetta mikilvæga öryggistæki kynnt.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson