Kæra samstarfsfólk!
Mannamót fylgja hátíðum og í kjölfar þeirra koma stundum umgangspestir. Við finnum verulega fyrir því um þessar mundir á Landspítala og meðal annars sjáum við nú fjölgun inflúensutilfella. Að öllu jöfnu tekst fólk á við slík veikindi heima við. Hins vegar getur inflúensan verið þungbær þeim sem glíma við önnur undirliggjandi vandamál. Þess vegna leita margir aðstoðar hjá okkur á Landspítala og álag verið mikið síðustu daga.
En toppnum er ekki náð og í raun erum við sennilega fyrst núna að leggja á brattann og búast má við auknu álagi á næstu vikum. Að vanda erum við í nánu samstarfi við nágrannasjúkrahúsin sem sinna öllu því sem þeim er unnt en eins og við gerðum Embætti landlæknis grein fyrir nýlega hefur innlögnum af Landspítala á nágrannasjúkrahús fjölgað mikið. Það samstarf er með miklum ágætum og frekari samvinna við aðrar heilbrigðisstofnanir á komandi ári er tilhlökkunarefni.
Landspítali er vel rekið sjúkrahús með stórkostlegu starfsfólki. Um það vitna alþjóðlegar skýrslur og gagnrýninn samanburður við erlend sjúkrahús. Aðstæður sjúklinga og starfsfólks eru í augnablikinu ekki alltaf eins og við vildum en fullviss um stuðning hagsmunaaðila og velvilja samfélagsins förum við baráttuglöð og vongóð inn í nýja árið.
Framundan eru tækifæri og áskoranir. Árið 2017 færir okkur þau tímamót að jáeindaskanni verður gangsettur, sjúklingahótel tekur til starfa, fullnaðarhönnun meðferðarkjarna við Hringbraut lýkur að mestu og hönnun rannsóknarkjarna á sama stað hefst. Við munum samhliða þessu vinna áfram ötullega að uppbyggingu mannauðs og vísindastarfs. Fjölmargt annað mætti nefna, stórt og smátt, og í meðfylgjandi viðtalsþætti tæpir starfsfólk á nokkrum hápunktum á nýliðnu ári og horfir fram á veg.
Gleðilegt ár öll sömul - megi það gefa okkur tækifæri til að efla Landspítala, sjúklingum til heilla!
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson