Kæra samstarfsfólk!
Við kveðjum nú árið 2016 og horfum til ársins 2017 með von í brjósti. Árið sem er að líða hefur verið viðburðaríkt hjá okkur enda ekki við öðru að búast á stærsta vinnustað landsins.
Ýmislegt ánægjulegt hefur drifið á daga okkar; átak vegna lifrarbólgu C hófst, ný flæðilína á rannsóknarstofum var tekin í notkun og gjörbreytti þjónustu rannsóknarstofa, við hófum átak til að minnka bið eftir tilteknum aðgerðum með samningum við velferðarráðuneytið en létum ekki þar við sitja heldur styttum einnig biðtíma eftir öðrum aðgerðum. Við undirrituðum samning um loftslagsmarkmið, héldum norrænu sjúkrahúsleikana, fjöldi starfsmanna tók þátt í hönnun langþráðs meðferðarkjarna, við tókum skóflustungu að húsi jáeindaskanna, mótuðum stefnu spítalans og starfsáætlun, endurbættum húsnæði augndeildar, tókum í notkun nýja hjartaþræðingastofu, nýtt tölvusneiðmyndatæki, nýja bráðaskurðstofu og svona mætti lengi telja.
Á árinu leituðu til okkar um 100.000 manns á bráðamóttökur, um 300.000 á dag- og göngudeildir, við gerðum meira en 2 milljónir rannsókna, 20.000 skurðaðgerðir og fögnuðum hjartanlega komu um 3.000 nýrra einstaklinga í heiminn. Það er óhætt að segja að okkur falli ekki verk úr hendi og stundum dugar sólarhringurinn varla til að starfsfólk nái að sinna margþættu þjónustu-, kennslu- og vísindahlutverki spítalans. Tími til leiksýninga er því enginn.
Þetta er sannarlega fjölbreyttur og annasamur starfsvettvangur sem við höfum valið okkur en á sama tíma gefandi. Hjá okkur fæðast flestir Íslendingar og flestir ljúka hér ævidögum sínum. Þar á milli eiga landsmenn mörg erindi við okkur þegar mikið liggur við og hafa þeir svo sannarlega sýnt hlýhug sinn í verki með margvíslegum hætti. Það er fátt heilbrigðisstarfsfólki mikilvægara en að sjá árangur starfa sinna, hvort heldur það er að koma sjúklingi aftur til bestu mögulegu heilsu eða, þegar annað er ekki mögulegt, að tryggja friðsæl ævilok. Ég þykist geta nærri að flest okkar hafi valið að starfa að heilbrigðisþjónustu á Landspítala vegna þessa. Fyrir það er ég ykkur þakklátur og þakka innilega afburðastörf á árinu og hlakka til að eiga samstarf við ykkur á því næsta um uppbyggingu öflugs þjóðarsjúkrahúss.
Innilegar nýárskveðjur til ykkar allra, hvort heldur þið standið vaktina eða njótið í faðmi fjölskyldu og vina!
Páll Matthíasson