Það sóttu margir góðir gestir leikstofu Barnaspítala Hringsins heim á aðventu jóla 2016. Hér eru nokkur dæmi þar um:
Mynd 1:
Rakel Rún Eyjólfsdóttir og María Dís Einarsdóttir með Sibbu á leikstofu Barnaspítala Hringsins. Þær héldu tónleika í Akraneskirkju og söfnuðu yfir 400 þúsund krónum sem þær gáfu Barnaspítala Hringsins.
Stúlkurnar eru báðar 15 ára. Þær hafa verið að syngja saman og tóku nokkur lög á leikstofunni..
Mynd 2:
Árný Ingvarsdóttir er sálfræðingur hjá Umhyggju. Hún leit inn á leikstofuna á Barnaspítala Hringsins með bækur sem hún hefur þýtt, bækur til að hjálpa börnum að sigrast á svefnvanda, neikvæðri hugsun og svo framvegis. Ein bókin heitir til dæmis Hvað get ég gert þegar erfitt er að sofna?
Mynd 3:
Lundapysjubókum leikstofunnar á Barnaspítala Hringins fjölgar enn
Þann 2. desember 2014 færði fjölskylda Hilmis Högnasonar frá Vatnsdal í Vestmannaeyjum og Öldu Björnsdóttur, eiginkonu hans, leikstofunni að gjöf bókina „Litla Lundapysjan“ sem er eftir Hilmi. Þá hafði hún verið gefin út á 8 tungumálum og fékk leikstofan eina bók á hverju þeirra; íslensku, dönsku, sænsku, norsku, ensku, frönsku, spænsku og þýsku. Nú hefur verið aukið við og ítalska, pólska, japanska og kínverska bæst í tungumálaflóruna. Fjölskyldan færði Barnaspítalanum þær bækur að gjöf á jólaföstu 2016. Hrefna Hilmisdóttir, dóttir höfundar, afhenti bækurnar.
Þær koma sér vel á leikstofunni því þar dvelja oft börn af erlendum uppruna. Gunnar Júlíusson teiknari, sem á ættir að rekja til Vestmannaeyja, teiknaði myndirnar í bókinni. Útgefandi er Örn Hilmisson, sonur höfundarins.
Þau hjón eignuðust átta börn. Alda dvelur nú á Hraunbúðum í Vestmannaeyjum, Hilmir er látinn.
Með gjöfinni færir fjölskylda Hilmis og Öldu jóla- og nýárskveðjur og þakkar fyrir gott starf á Barnaspítala Hringsins.