Kæra samstarfsfólk!
Við skulum bera höfuðið hátt.
Landspítali er vel rekið sjúkrahús með afburða starfsfólki sem afkastar meiru fyrir minna fjármagn en sambærilegar stofnanir. Framlag okkar til samfélagsins er mikils metið enda nýtur spítalinn hlýhugs og velvilja landsmanna. Því miður eru aðstæður sjúklinga og starfsfólks ekki alltaf eins og við vildum og það er stöðugt verkefni okkar að berjast áfram fyrir hag sjúklinga. Í þeirri báráttu eigum við marga bandamenn en vissulega þurfum við stundum að mæta vanþekkingu þeirra sem ættu að vita betur.
Alþingi hefur nú afgreitt fjárlög fyrir árið 2017. Enn eitt árið máttum við leggjast þungt á árarnar til að forðast aðhaldskröfu og er árangur þess erfiðis sá að ef fram fer sem horfir ættum við að geta haldið starfseminni á pari við árið sem nú er að líða. Vissulega eru það vonbrigði í ljósi þess sem margrætt og ritað var í aðdraganda kosninga af hálfu stjórnmálamanna sem nú sitja við völd. Hins vegar er ánægjulegt að Alþingi nær saman um að tryggja okkar rekstrargrunn sem forðar okkur frá niðurskurðaraðgerðum. Þar verður að þakka einstaka þingmönnum vasklega framgöngu.
Nú hækkar sól og birtir yfir landinu. Við skulum leyfa okkur að vera bjartsýn og treysta á að ný ríkisstjórn hefji þá uppbyggingu og endurreisn heilbrigðiskerfisins og Landspítala sem allir voru einhuga um.
Jólahátíðin er sérstakur tími á Landspítala. Það er flestum þungbært að þeir, eða ættingjar þeirra, þurfi að dvelja hjá okkur þegar flestir vildu heldur vera heima. Mörg okkar sem unnið hafa á Landspítala yfir hátíðarnar þekkja þá sérstöku helgi sem færist yfir húsin þegar jólin ganga í garð. Ég vona sannarlega að sjúklingar, ættingjar þeirra og starfsfólk geti fundið þann frið sem jólahátíðinni fylgir á Landspítala og sr. Bragi lýsir svo ágætlega í meðfylgjandi myndbandi.
Innilegar jólakveðjur til ykkar allra, hvort heldur þið standið vaktina eða njótið í faðmi fjölskyldu og vina!
Páll Matthíasson