Framkvæmdastjórn Landspítala vinnur að því að aðlaga rekstur spítalans að því frumvarpi til fjárlaga ársins 2017 sem nú liggur fyrir. Af frumvarpinu leiðir aðhaldskrafa á Landspítala upp á 5,3 milljarða króna. Þeir viðbótarfjármunir (tæplega 4 milljarðar) sem ráð er fyrir gert í frumvarpinu koma ekki til móts við þá kröfu, enda renna þeir að mestu í launa- og verðlagsbætur.
Trúverðug áætlun
Þótt fjárlög hafi ekki verið samþykkt gerir velferðarráðuneytið þá kröfu til stofnana sinna að áætlun fyrir árið 2017 verði skilað í byrjun næstu viku. Einhverjir kunna að telja að áhyggjur okkar séu óþarfar eða of miklar enda málið í vinnslu fjárlaganefndar og ekki frágengið. Það er hins vegar veruleiki Landspítala að þurfa að sýna fram á það með trúverðugum hætti hvernig þessari aðhaldskröfu verður mætt með skýrri áætlun til ráðuneytisins og það munum við gera.Hriktir í stoðum
Aðhaldskröfu af þessari stærðargráðu í mannfrekum og umsvifamiklum rekstri, sem hefur tekið á sig verulegan niðurskurð undanfarinn áratug og viðurkennt er að sé rekinn fyrir helmingi minna fé en sambærileg sjúkrahús erlendis, samanber skýrslu McKinsey, verður ekki mætt nema að verulega hrikti í stoðum.
Forgangsröðun liggur fyrir
Þegar ríflega 70% rekstrarkostnaðar liggja í mannahaldi er sömuleiðis ljóst að ekki verður unnt að mæta kröfunni öðruvísi en með uppsögnum. Af því leiðir að einhver starfsemi mun verða skert og önnur lögð af. Aðrar leiðir eru ekki færar eftir vegferð síðasta áratugar. Verkefnið nálgast stjórnendur Landspítala út frá eftirfarandi forgangsröð.1. Lífsbjargandi þjónusta; meðhöndlun alvarlegra bráðatilfella og lífshættulegra sjúkdóma.
2. Meðferð vegna alvarlegra langvinnra sjúkdóma.
3. Meðferð minna alvarlegra slysa og sjúkdóma.
4. Endurhæfing, forvarnir.
5. Þjónusta við þá sem lokið hafa meðferð á Landspítala.
Fjársveltur en vel rekinn spítali
Að vera enn og aftur í þessari stöðu er þungbært, ekki hvað síst í ljósi átaka við fjárlaganefnd síðasta þings sem lauk með því að velferðarráðuneytið kallaði eftir óháðu mati utanaðkomandi aðila á rekstri og starfsemi Landspítala. Niðurstöður þeirrar úttektar voru birtar í áðurnefndri McKinsey-skýrslu. Fyrir þá úttekt efuðust sumir þingmenn um hagkvæmni rekstrar spítalans. En eins og starfsfólki og sjúklingum Landspítala var þegar ljóst sást í skýrslunni að spítalinn er fjársveltur en vel rekinn og nær að sinna sínu lykilhlutverki þrátt fyrir andvara- og skilningsleysi yfirvalda á starfseminni.Órofa stuðningur fyrir kosningar
Til að kóróna allt saman kemur þetta ófullburða fjárlagafrumvarp nú strax í kjölfar kosninga þar sem allir flokkar sem nú sitja á Alþingi sóru og sárt við lögðu að nú væri upp runninn tími endurreisnar heilbrigðiskerfisins. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi starfsemi Landspítala. Hægt er að hafa orð stjórnmálamannanna sjálfra fyrir því og öruggt að val margra kjósenda í hópi starfsmanna og velunnara Landspítala hafi mótast af þeim velvilja sem þar birtist.Óboðlegt fjárlagafrumvarp
Í þessu ljósi er óhætt að segja, þegar horft er til fjárlagafrumvarpsins, að fjallið tók joðsótt og fæddist lítil mús. Frumvarp með aðhaldskröfum af þessu tagi er er ekki boðlegt sjúklingum og aðstandendum þeirra sem munu áfram þurfa að þiggja þjónustu sem of oft er undir okkar getu og þeirra væntingum. Frumvarpið er ekki boðlegt starfsfólki Landspítala sem dregið hefur þennan þunga vagn frá aldamótum og hafði fulla ástæðu til að ætla að nú yrði létt á byrðunum. Það er ekki boðlegt kjósendum þessa lands sem gerðu stjórnmálamönnum ljósa grein fyrir því hvar hjarta landsmanna slær: Með heilbrigðiskerfinu. En ekki hvað síst er frumvarpið óboðlegt sæmilega heilbrigðri skynsemi enda með öllu óskiljanlegt að nýta ekki þann frumkraft sem býr í öflugri starfsemi Landspítala þegar hann fær rými til að sinna sínum verkefnum.Skýrir valkostir
Einhverjum kann að svíða undan athugasemdum mínum og annarra ríkisforstjóra við fjárlagafrumvarpið. En ég missi ekki svefn yfir því og minni á að það er einfaldlega hlutverk mitt að gera grein fyrir afleiðingum þeirra afdrifamiklu ákvarðana sem nú eru í farvatninu.Fjárlagafrumvarpið er nú til umfjöllunar á þingi og enn tækifæri til að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru. Valið er nýs Alþingis og valkostirnir eru skýrir.
1. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt verða afleiðingarnar mjög alvarlegar fyrir stóran hóp sjúklinga og aðstandendur þeirra. Ekki verður komist hjá uppsögnum, lokunum deilda og annarri skerðingu á þjónustu sjúkrahússins. Það er óþolandi.
2. Verði komið til móts við lágmarksfjárþörf Landspítala og niðurskurði um 5,3 milljarða forðað verður ástand mála á Landspítala óbreytt. Það er óásættanlegt.
3. Verði gerð veruleg bragarbót á frumvarpinu og fjármagni veitt til Landspítala til uppbyggingar - eins og lofað var - getum við sett kraft í langþráða endurreisn.
Lokaorð
Í stjórnarmyndunarviðræðum síðustu vikna hefur öllum þátttakendum verið tíðrætt um mikilvægi þess að kosningaloforð verði að halda, trúverðugleiki stjórnmálamanna sé í húfi. Í því ljósi virðist augljóst hver valkostur allra þingmanna hlýtur að vera.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson