Hulda Bjarnadóttir fjölmiðlakona hefur fært kvenlækningadeild 21A á Landspítala að gjöf sjö Samsung spjaldtölvur fyrir hönd Brakka, sem eru samtök BRCA arfbera. Gjöfin var afhent 8. desember 2016.
Hulda gekkst fyrir skömmu undir brjóstnám eftir að hafa verið gefnar 90 prósenta líkur á því að þurfa að takast á við bjóstakrabba upp úr fertugu. Það vakti heimsathygli þegar leikkonan Angelina Jolie lét fjarlægja brjóst sín af sömu ástæðu.
Reynsla Huldu af spítaladvölinni var meðal annars sú að þar mætti hækka afþreyingarstigið. Hún sá í hendi sér að spjaldtölvur gætu komið að gagni í því. Hulda fékk því fyrirtækið Tæknivörur í lið með sér og spjaldtölvurnar voru keyptar. Sjónvarp Símans gaf áskrift og Árvakur gaf netáskrift að Morgunblaðinu.
Á mbl.is var fjallað um spjaldtölvugjöfina. Á myndinni sem ljósmyndari mbl.is tók eru Hulda Bjarnadóttir, Erling Adolf Ágústsson frá Árvakri, Hrund Magnúsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri kvenlækningadeildar 21A, og Inga Lillý Brynjólfsdóttir, formaður Brakka.