Hver er hann þessi Hringur?
Hringur er kátur og góðlátlegur hvítabjörn sem venur komur sínar á Barnaspítala Hringsins til að stytta börnunum stundir, fræða þau um ólíklegustu hluti í umhverfi sínu og ræða við þau um spítalann.
Þar sem Hringur er hin mesta óheillakráka þá kennir hans sér iðulega meiðsla og er óspar á að tala um þau. Hann lendir því oft í hrókasamræðum við krakkana um meiðsli, verki eða tæki og tól sem notuð eru innan spítalans. Hringur leggur hins vegar mikið upp úr því að hvetja börnin og treysta læknum og hjúkrunarfólki til að þau nái skjótum bata sameiginlega. Hann er líka oft kallaður til með stuttum fyrirvara þegar mikið liggur við enda telur Hringur sig gegna sérstöku hlutverki aðeins fyrir börnin á Barnaspítala Hringsins.
Hugmyndin að Hring var fengin frá Ingólfi Erni Guðmundssyni og Önnu Mörtu Ásgeirsdóttur. Hugmyndin varð að veruleika í kjölfar þess að gestir í brúðkaupi þeirra lögðu í sérstakan sjóð í stað þess að gefa brúðargjafir og
veittu verkefninu þannig brautargengi. Ýmsir fleiri hafa síðan veitt fjárhagslegan stuðning. Útfærslan var unnin í nánu samstarfi við lækna og hjúkrunarfólk á Barnaspítala Hringsins. Auk þess teiknaði Jón Hámundur fyrstu útlitstillögur, Guðmundur Þór Kárason gerði drög að hönnun búnings og Björgvin Franz Gíslason mótaði persónueinkenni Hrings. Endanleg hönnun og útfærsla á hugmyndinni var unnin af bandaríska brúðugerðarmeistaranum Mary Robinette Kowal. Við endanlega gerð búningsins var mikil áhersla lögð á hönnunarlega þætti sem miða að því að sá sem gæðir hann lífi eigi auðvelt með samskipti við börn.
Í 10 ár hefur ísbjörninn Hringur leikið stórt hlutverk í því að stytta börnum stundirnar á Barnaspítala Hringsins og hann hefur birst víðar og jafnvel alveg óvænt, stal til dæmis senunni þegar tekin var fyrsta skóflustunga að sjúkrahótelinu sem er í byggingu á Hringbrautarlóðinni!