Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2017 hefur nú verið lagt fram við sérstakar aðstæður á Alþingi. Fjárheimildir þar til Landspítala og heilbrigðiskerfisins í heild eru vonbrigði. Fyrir liggur að tillögur fráfarandi stjórnvalda gera ráð fyrir meiri aðhaldsaðgerðum á Landspítala á árinu 2017 en á dýpsta ári kreppunnar.
Lágmarksfjárþörf kynnt 19. febrúar
Í aðdraganda síðustu kosninga voru allir flokkar sammála um mikilvægi þess að styrkja heilbrigðiskerfið og efla Landspítala. Fyrirheit voru gefin um stóraukna áherslu í þá veru.Fjárþörf Landspítala til næstu ára er fráfarandi stjórnvöldum vel kunn enda var hún meðal annars kynnt þeim á fundi 19. febrúar síðastliðinn, þegar fjárlagafrumvarpið var í vinnslu. Lágmarksfjárþörf Landspítala var þá metin 5,5 milljarðar og miðaði sú fjárhæð við að viðhalda óbreyttri stöðu spítalans. Þarna var um algert lágmark að ræða, ekki sérstaka uppbyggingu en almenningur gaf einmitt stjórnvöldum skýr skilaboð í undirskriftasöfnun til stuðnings heilbrigðiskerfinu um að uppbyggingar væri þörf.
Fjárþörf til uppbyggingar
Í anda þess metnaðar sem stjórnmálamenn sýndu til heilbrigðismála í aðdraganda kosninga tók Landspítali saman frekari greinargerð um fjárþörf sjúkrahússins til næstu ára (pdf) og kynnti hana forystufólki allra flokka.Þessi greinargerð sýndi ekki aðeins lágmarksfjárþörfina til næstu ára heldur einnig æskilegar fjárveitingar til viðbótar til að hefja nauðsynlega og löngu tímabæra uppbyggingu, enda sammæltust stjórnmálamenn um að nú væri sá tími kominn. Greinargerðin kom einnig til móts við þær tillögur sem fram koma í skýrslu velferðarráðuneytis og Alþingis sem unnin var af ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey um rekstur Landspítala. Að teknu tilliti til þessara þátta var samanlögð fjárþörf á árinu 2017 talin vera um 11,7 milljarðar króna.
Landspítali 50% ódýrari
Samkvæmt McKinsey skýrslunni eru útgjöld við hverja framleidda þjónustueiningu á Landspítala u.þ.b. 50% lægri en á sænskum samanburðarsjúkrahúsum (að teknu tilliti til gengis og verðlagsmunar). Þessi munur er slíkur að það ætti ekki að vekja furðu stjórnvalda að hér vanti meira fé. Enn fremur liggur fyrir að ríkisframlag til rekstrar Landspítala var á árinu 2016 3,4 milljörðum lægra, á föstu verðlagi, en árið 2008. Á tímabilinu jókst eftirspurn stórlega enda fjölgaði þjóðinni um 5,4% og eldri borgurum (67 ára og eldri) um 26% samkvæmt gögnum Hagstofu. Einnig voru sjúkrahúsinu á þessu tímabili falin stóraukin verkefni.Tæplega 10% niðurskurðarkrafa
Fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir kallar að óbreyttu á niðurskurð á Landspítala sem nemur að lágmarki 5,3 milljörðum á árinu 2017. Þetta er nánast sama tala og kynnt var fráfarandi stjórnvöldum í febrúar sem lágmarksfjárþörf (5,5 milljarðar). Frumvarpið boðar niðurskurð af stærðargráðu sem nemur hartnær 10% af heildarumsvifum. Slíkt verkefni verður ekki átakalaust.Til að setja þetta í samhengi er rétt að líta til ársins 2010 en það ár var mesti niðurskurður í manna minnum á Landspítala eða sem nam um 9% (3,3 milljarðar á þeim tíma). Það ár var farið í mjög erfiðar aðgerðir svo sem lokun og sameiningu legudeilda (fækkun rúma) og tilfærslu þjónustu til dagdeilda, sameiningu bráðamóttaka og stoðdeilda, skerðingu á starfsemi skurðstofa, víðtækar breytingar á vinnu- og vaktaskipulagi með fækkun starfsmanna og samdrætti í vöktum, afleysingum og yfirvinnu, samdrátt í viðhaldi, sérstakar hagræðingaraðgerðir gagnvart lyfjakostnaði og notkun greiningarrannsókna, samdrátt í endurnýjun tölva og annars búnaðar, samdrátt í sí- og endurmenntun starfsmanna svo og áskrift að vísindatímaritum, auk þess almennan niðurskurð á stoðeiningum. Þessar aðgerðir voru óumflýjanlegar á þessum tímum verstu efnahagskreppu landsins en skildu vissulega eftir ör á þjónustu sjúkrahússins og starfsfólki þess sem enn sjást merki um. Nú, sex árum síðar, stendur þjóðarsjúkrahúsið í sömu sporum. Krafan um niðurskurð er ívið meiri en þegar verst lét í kreppunni – en samt mun efnahagur þjóðarinnar sjaldan eða aldrei hafa verið betri samkvæmt málflutningi fráfarandi ráðamanna.
Minnstu fjárveitingar í OECD
Það er staðreynd að Ísland nýtur þess vafasama heiðurs að verma botnsæti Efnahags og framfarastofnunarinnar OECD hvað snertir fjárfestingar í innviðum heilbrigðiskerfisins. Ísland er sömuleiðis lægst Norðurlanda í fjárframlögum til heilbrigðismála sem hlutfalli af vergri landsframleiðslu. Þessi alvarlega staða hvatti menn til dáða í aðdraganda kosninga og fyrirheit voru um miklar umbætur. Allir flokkar höfðu bætta stöðu heilbrigðisþjónustu í landinu á oddinum. Landspítali er vel rekinn við mjög erfiðar aðstæður, um það vitnar greining McKinsey. Frekari fjárveitinga er þörf og með ólíkindum að rætt sé af léttúð um það verkefni sem sjúkrahúsið stendur nú frammi fyrir. Jafnframt er áhyggjuefni að forsvarsmenn þjóðarinnar bjóði upp á þann málflutning að bætur vegna launa- og verðlagsþróunar séu aukin fjárframlög sem nýtist til að mæta aukinni eftirspurn.Lokaorð
Það er ekki markmið mitt eða annarra á Landspítala að draga upp dekkri mynd en ástæða er til. Það er hins vegar hlutverk okkar og skylda að gera stjórnvöldum og almenningi raunsanna grein fyrir afleiðingum þess fjárlagafrumvarps sem lagt hefur verið fram.
Ég bið ykkur, kæra samstarfsfólk, að láta ekki bilbug á ykkur finna, heldur sinna áfram störfum ykkar af þeirri elju og fagmennsku sem þið sýnið dag hvern. Ef marka má orð stjórnmálamanna fyrir kosningar þá verður þessu frumvarpi breytt mikið og leið fundin til að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustu í landinu. Verði frumvarpið hins vegar að veruleika með takmörkuðum umbótum þá mun Landspítali að sjálfsögðu hér eftir sem hingað til nálgast verkefnið af yfirvegun. Það munum við gera í samvinnu við stjórnvöld, samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál, og stjórnvöld munu þá þurfa að leggja línurnar og útskýra hvaða heilbrigðisþjónustu þau telja landsmenn helst geta verið án.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson