Nýtt skref í notkun aðgerðarþjarka í skurðaðgerðum á Íslandi var tekið 28. nóvember 2016 með hlutabrottnám á ristli. Ristilskurðlæknarnir Helgi Kjartan Sigurðsson og Jórunn Atladóttir á Landspítala gerðu tvær slíkar aðgerðir með því að nota aðgerðarþjarka. Niels Thomassen, ristilskurðlæknir frá Danmörku og sérfræðingur í notkun aðgerðarþjarka í ristilaðgerðum, var viðstaddur aðgerðirnar.
Aðgerðarþjarki er á helstu sjúkrahúsunum í nágrannalöndunum og notkun hans í ristil- og endaþarmsaðgerðum hefur aukist mikið undanfarin ár með góðum árangri. Stefnt er að aukinni notkun þjarkans í kviðarholsaðgerðum á Landspítala.
Aðgerðarþjarkinn hefur verið í notkun á Landspítala síðan í febrúar 2015 og gerðar hafa verið aðgerðir innan þvagfæraskurðlækninga, kvenlækninga, barnaskurðlækninga og hjartaskurðlækninga.