Nú hefur verið ákveðið að kalla saman þing þann 6. desember en ekki liggur fyrir hvort myndun ríkisstjórnar muni takast fyrir þann tíma. Af hálfu Landspítala er ljóst að sú ríkisfjármálaáætlun sem fráfarandi ríkisstjórn lagði fram og fjárlög byggja væntanlega á mun ekki brúa það bil sem er á milli þeirrar þjónustu sem spítalinn veitir og þess kostnaðar sem af þjónustunni hlýst. Þetta hef ég margrætt í ræðu og riti, nú síðast á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Ég er hins vegar vongóður um að fyrirheit stjórmálamanna um aukin framlög til heilbrigðisþjónustunnar fyrir kosningar gangi eftir, slíkur var samhljómur í málflutningi allra þeirra sem um málið fjölluðu.
Í vikunni var ánægjuleg athöfn í Hringsal, þegar ég afhenti 3 hvatningarstyrki Vísindasjóðs Landspítala. Flóra styrkja Vísindasjóðs er fjölbreytt en hvatningarstyrkirnir hafa þá sérstöðu að þá hljóta aðeins sterkir rannsóknarhópar sem þegar hafa hlotið alþjólega viðurkenningu. Ingibjörg Gunnarsdóttir yfirnæringarfræðingur og félagar hafa unnið að rannsóknum þróunar einstaklingsmiðaðrar næringarmeðferðar á meðgöngu og bæta þannig skilning á hlutverki næringar snemma á lífsleiðinni. Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir í blóðmeinafræði, veitti viðtöku styrk fyrir hönd vísindahóps sem hefur beint sjónum sínum að nýjum leiðum til að mæla verkan blóðþynningarlyfsins warfarin. Verkun warfarins er oft óstöðug en stöðugleikinn eykst með aðferðum Páls Torfa og félaga til að stýra meðferðinni með mælingum enda fyrirséð að þrátt fyrir DOAC lyf - sem eru mjög dýr - verður warfarin áfram í notkun. Loks tók Viðar Örn Eðvarðsson sérfræðilæknir við hvatningarstyrk fyrir rannsókn á faraldsfræði, erfðafræði og klínískum gangi nýrnasteinasjúkdóms. Þar er á ferðinni öflugur hópur sem hefur á síðustu tveimur áratugum safnað gögnum og rannsakað þennan sjaldgæfa sjúkdóm auk þess að þróa aðferðir við greiningu og meðferð. Vísindastarf er aftur vaxandi á Landspítala, sem er afar ánægjulegt, og ég hlakka til að veita ungum vísindamönnum styrk Vísindasjóðs Landspítala nú um miðjan desember.
Landhelgisgæslan heldur um þessar mundir upp á 90 ára afmæli sitt. Landhelgisgæslan er eins og Landspítali ein af grunnstoðum samfélagsins og við eigum í nánu samstarfi. Sjálfsagt var það þess vegna sem Gæslan bauð okkur í afmæli sitt, ekki bara einu sinni heldur margoft! Fyrr í haust fór hópur sjúklinga og starfsfólks í skemmtilega siglingu með varðskipinu Þór og síðan hefur langveikum börnum endurtekið verið boðið í þyrluflug yfir Reykjavík og nágrenni. Ég var svo heppinn að fá að fara með í síðustu viku og vil þakka gæslunni og ferðafélögum kærlega fyrir.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson