Á barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL, vinnur breiður hópur fagfólks sem sérhæfir sig í greiningu og meðferð á geðröskunum barna og unglinga með það að leiðarljósi að stuðla að auknum lífsgæðum þeirra og fjölskyldna þeirra.
BUGL er deild innan kvenna- og barnasviðs Landspítala og er eina barna- og unglingageðdeildin á landinu. Þar er tekið á móti börnum að 18 ára aldri, alls staðar að af landinu.
Starfsmenn BUGL veita sérfræðiþjónustu og sinna börnum og unglingum með flókinn og samsettan geðrænan vanda eða alvarleg geðræn einkenni. Veitt er sérhæfð þverfagleg þjónusta sem tekur mið af þörfum barna og fjölskyldna þeirra. Að jafnaði er 5-6 mánaða bið en þó er raðað á biðlista eftir alvarleika. Mikil samvinna er við þá sem sinna frumgreiningu svo sem heilsugæslu og félagsþjónustu auk annarra fagaðila sem sinna barni og fjölskyldu í nærumhverfi.
Í myndbandinu segir Linda Kristmundsdóttir deildarstjóri nánar frá fjölbreyttri starfsemi á BUGL.