í vikunni kom út Evrópuskýrsla OECD; Health at a Glance: Europe 2016. Að vanda er þarna mikið af áhugaverðu efni sem áhugafólk um stöðu heilbrigðisþjónustunnar ætti ekki að láta fram hjá sér fara. Ánægjulegt er að sjá að Ísland heldur forystunni í lágri tíðni burðarmálsdauða en hann er lægstur hjá okkur af öllum Evrópulöndum og raunar nær ekkert ríki jafngóðum árangri á þessu mikilvæga sviði. Við á Landspítala leyfum okkur að eigna okkur hluta þessa heiðurs en auðvitað skiptir þar líka miklu máli náið og gott eftirlit ljósmæðra í þéttu neti heilsugæslustöðva um allt land. Öflugt samstarf á landsvísu skilar þessum ánægjulega árangri.
Það er samt verk að vinna á mörgum sviðum. Ekki er eins ánægjulegt að sjá að enn vermir Ísland botnsæti Evrópulanda í hópi OECD-ríkja í fjárfestingum í innviðum heilbrigðisþjónustunnar og sérstaka athygli vekur að ekki varð aukning frá árinu 2013. Hvað OECD-ríki varðar á heimsvísu erum við í botnslagnum við Mexíkó en Grikkir náðu að lyfta sér úr þessum vafasama félagsskap. Þessi auma staða ætti að vera stjórnvöldum verulegt umhugsunarefni og hvatning til að gera betur. Samhliða er afar áríðandi að nýta þá fjárfestingu og þekkingu sem þó er fyrir í kerfinu og efla hana, t.d. með uppbyggingu og fullnýtingu skurðstofa á Landspítala. Krafturinn og þekkingin er sannarlega til staðar hjá okkur og umgjörðin öruggust.
Við erum á réttri leið. Í vikunni var formlega tekið í notkun nýtt tölvusneiðmyndatæki á Landspítala Fossvogi. Það er langþráð viðbót við eldra tæki og verða þau hér eftir bæði í notkun. Þetta er mikið öryggisatriði fyrir sjúklinga því of oft hefur það gerst að tölvusneiðmyndatækið á aðalslysamóttöku landsins hafi bilað, jafnvel í miðri notkun. Þá höfum við neyðst til að flytja mikið veika sjúklinga sem þurft hafa að fara í rannsókn í slíku tæki á milli Fossvogs og Hringbrautar. Nú eru þeir tímar vonandi úr sögunni. Að sjálfsögðu bíðum við öll eftir því að meðferðarkjarninn rísi og öll bráðastarfsemi verði saman komin á Landspítala við Hringbraut. Þangað stefnum við ótrauð á vaxandi hraða.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson