Landspítali hefur ásamt Háskóla Íslands skipað sjálfstæða og óháða nefnd þriggja manna sem ætlað er að rannsaka þá þætti hins svokallaða. plastbarkamáls sem lúta að stofnunum og starfsmönnum þeirra. Auk þess er gert er ráð fyrir að nefndin rýni niðurstöður þeirra sænsku rannsókna sem nú liggja fyrir og ræði við skýrsluhöfunda. Nefndin er skipuð þeim Páli Hreinssyni, dómara við EFTA-dómsstólin, Maríu Sigurjónsdóttur, geðlækni í Noregi og Georgi Bjarnasyni, krabbameinslækni í Kanada. Nefndin hefur þegar hafið störf og er áætlað að niðurstöður hennar liggi fyrir á vormánuðum.
Nú er unnið að uppsetningu nýs tölvusneiðmyndatækis í Fossvogi. Þar verða því tvö tæki til reiðu og er það okkur afar mikilvægt. Við höfum ítrekað orðið fyrir því að sneiðmyndatækið hefur bilað, jafnvel á meðan alvarlega veikir sjúklingar voru í því, svo þetta er gríðarlega mikilvæg viðbót og eykur öryggi sjúklinga. Óþarfa flutningar sjúklinga milli Fossvogs og Hringbrautar vegna þessa munu því minnka. Tækið er auk þess öflugra en þau tæki sem við nú höfum, það er hraðvirkara og getur þjónustað fólk í yfirþyngd. Þetta er ánægjuleg viðbót við tækjakost okkar og dæmi um góða nýtingu á því fé sem runnið hefur til tækjakaupa spítalans síðustu árin.
Hafið það gott um helgina hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson