Rannsóknastofa Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum (RHLÖ) er að hefja þátttöku í Evrópurannsókn um líkamlegan hrumleika og aldurstengda vöðvarýnum.
Evrópurannsókn SPRINTT (Sarcopenia and Physical Railty IN older people: multi-componenT Treatment strategies) er stór rannsókn sem 17 rannsóknarsetur og 10 Evrópulönd taka þátt í. SPRINTT rannsóknarverkefnið (www.mysprintt.eu) er fjármagnað af sambandi aðila í nýsköpun innan læknavísinda (the Innovative Medicines Initiative) sem er hópur á vegum Evrópusambandsins. Rannsakendurnir eru í samstarfi við Evrópusamband fyrirtækja í lyfjaiðnaði og félaga þeirra (the European Federation of Pharmaceutical Industries and Associations (EFPIA)). Íslenska þætti SPRINTT rannsóknarinnar er stýrt frá Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum (RHLÖ) en miðlægt er hún samhæfð af öldrunarlækningadeild kaþólska sjúkrahússins í Róm, Ítalíu, á ensku: Department of Geriatrics, Neurosciences and Orthopedics of the Catholic University of the Sacred Heart, Rome, Italy. Ábyrgðarmaður íslenska hluta rannsóknarinnar er Pálmi V. Jónsson, prófessor og yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítala. Verkefnisstjóri er dr. Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent í næringarfræði við Háskóla Íslands og verkefnisstjóri á RHLÖ.
Megintilgangur SPRINTT rannsóknarinnar er að stuðla að þróun inngripa sem beinast gegn líkamlegum hrumleika og aldurstengdri vöðvarýrnun. Rannsóknin er slembiröðuð klínisk samanburðarrannsókn til tveggja ára á öldruðu fólki sem býr heima og er án fötlunar en hefur aldurstengda vöðvarýrnun og er þess vegna í viðkvæmri stöðu hvað varðar líkamlega færni. Þátttakendum verður skipt í tvo hópa á tilviljunarkenndan hátt, hvor telur alls 750 þátttakendur í 10 Evrópulöndum en íslenski armur rannsóknarinnar er um 50 einstaklingar. Annar hópurinn fylgir fjölþátta inngripi en hinn inngripshópurinn mun fá fræðslusprógram um heilbrigðan lífsstíl á efri árum.
Rannsóknin mun auka þekkingu á þeim þáttum sem liggja að baki þessara áhættuþátta fyrir fötlun. Aukin þekking á þessum líkamlegu breytingum mun hjálpa til við að finna þá sem eru í mestri áhættu og þá sem eru líklegastir til að svara inngripi af því tagi sem skoðað er í þessari rannsókn. Það gæti bætt horfur um líkamlega færni.
Margir þættir verða skoðaðir til að auka skilning á áhrifum hreyfingar og næringar á andlega- og líkamlega vellíðan aldraðra. Einnig verða niðurstöðurnar notaðar til að móta ráðleggingar til forvarna gegn tiltölulega algengu heilbrigðisvandamáli aldraðra.
Mynd: Íslenski rannsóknarhópurinn ásamt stjórnendum rannsóknarinnar frá kaþólska sjúkrahúsinu í Róm