Í vikunni varð alvarlegt umferðarslys á Þingvallavegi og var viðbragðsáætlun Landspítala vegna hópslysa virkjuð. Þar sem ég er sjálfur hluti viðbragðsstjórnar var ég í nánum tengslum við atburðarásina eins og hún sneri að Landspítala. Það kom auðvitað ekki á óvart að allir lögðust á eitt við að mæta þessum alvarlegu atburðum og gekk allt eins og best verður á kosið. Heilmargt þurfti að ganga upp til að viðbragðsáætlunin gengi eftir og m.a. snéri það að blóðsöfnun. Starfsmenn símaversins hafa sagt mér frá því að mikill fjöldi fólks hafi haft samband og boðist til að gefa blóð. Það er okkur ómetanlegt að finna stuðning samfélagsins á þennan hátt og við erum þakklát fyrir það. Ég vil líka þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum sem brugðust skjótt við og stóðu vaktina við þessar aðstæður. Við getum verið stolt af okkar framlagi.
Umræða um staðsetningu uppbyggingar Landspítala hefur nú á síðustu dögum fyrir kosningar enn skotið upp kollinum. Umræðan hefur staðið síðustu 15 ár í ræðu og riti, á ljósvaka- og raunar öllum miðlum. Fá mál hafa fengið jafn mikla opinbera umræðu og skýtur því skökku við að einhverjir telja sig skynja þöggun um þetta mál - því fer svo fjarri sem hugsast getur. Hugmyndir um uppskiptingu starfsemi Landspítala í tengslum við þessa umræðu eru sérstakar enda til framkvæmdanna stofnað í þeim tilgangi að sameina flókna keðju viðkvæmrar starfsemi. Bráðastarfsemin verður ekki skilin frá legudeildarstarfseminni, eins og öllum ætti að vera ljóst. Uppbygging Landspítala er risavaxið öryggismál fyrir landsmenn og sameining starfsemi Landspítala við Hringbraut má ekki við neinum töfum. Ekki í 6 mánuði - ekki í 6 ár - og hvað þá lengur!
Starfsemi nútíma sjúkrahúsa er tæknilega flókin. Mikilvægur áfangi í uppbyggingu sérhæfðrar krabbameinsmeðferðar er bygging aðstöðu fyrir jáeindaskanna en framleiðslueining hans kom í hús í vikunni. Við gerum ráð fyrir að geta hafið meðferð sjúklinga í jáeindaskannanum í síðasta lagi næsta haust og verður með því gríðarlegt framfaraskref stigið í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Hafið það gott um helgina hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin.
Páll Matthíasson