Framleiðslubúnaður vegna nýs jáeindaskanna á Landspítala var hífður í hús 24. október 2016. Íslensk erfðagreining færir þjóðinni þetta langþráða tæki að gjöf, ásamt jarðhýsi þar sem öllum búnaðinum verður komið fyrir í. Þar verður tilraunastofa og nauðsynleg framleiðsla á ísótópum, geislavirku efni fyrir jáeindaskannann. Kjarninn í þeim búnaði sem kom núna er rafall sem vegur tæp 10 tonn. Utan um hann eru hurðir eða hlífar sem samtals vega vel á fjórða tug tonna, járn- og blýklumpar sem koma í veg fyrir geislun. Alls var núna komið með 60 tonna búnað, jáeindaskanninn sjálfur er væntanlegur fyrir áramót.
Jáeindaskanninn er öflugt tæki sem er einkum notað til greiningar á krabbameinum þannig að besta leið finnist til meðhöndlunar á því. Til þessa hefur þurft að senda sjúklinga til útlanda í slíkt tæki. Framundan er að ljúka við jarðhýsið, koma öllum búnaði fyrir og þjálfa starfsfólk. Áætlað er að það taki 5 til 6 mánuði.
Myndin fyrir ofan: Tækjabúnaður vegna jáeindaskanna í hús 24. október 2016 - Tólf tonna hlífin á lofti.