Verkefnið er fjármagnað með svokölluðum COST styrk Evrópusambandsins (European Cooperation in Science and Technology).
Rannsóknir benda til þess að forgangsröðun í hjúkrun sé viðtekinn vandi og hafi neikvæðar afleiðingar fyrir sjúklinga, hjúkrunarfræðinga og stofnanir. Markmið verkefnisins er að auðvelda umræðu um forgangsröðun í hjúkrun með fjölþjóðlegri nálgun og samanburð milli landa á þjónustunni og þróun hjúkrunar. Þetta verður gert með því að stuðla að samstarfi og nýtingu á sérfræðiþekkingu í Evrópu og alþjóðlega og með aðkomu ólíkra aðila svo sem úr hjúkrun, heilbrigðisþjónustu almennt, siðfræði og félagsvísindum.
Verkefnið er eitt af 26 sem valin voru úr hópi 260 umsækjenda frá öllum löndum Evrópu. Stjórnandi þess er dr. Evridiki Papastavrou, dósent við hjúkrunarfræðideild Cyprus University of Technology en skólinn er handhafi styrksins.
Þátttakendur koma frá 28 löndum (Evrópu og alþjóðlega) og eru frá ýmsum fræðasviðum eins og hjúkrunarfræði, sálfræði, heimspeki, siðfræði, heilbrigðishagfræði og heilbrigðisstjórnun og eru þar á meðal fræðimenn, fagmenn, stefnumarkandi aðilar, kennarar og sjúklingar.
Vinna þátttakenda í verkefninu fer fram í fjórum vinnuhópum og tveimur nefndum sem hafa umsjón með hinum ýmsu verkþáttum á fjögurra ára tímabili verkefnisins. Hver vinnuhópur einblínir á mismunandi þætti, hugtakagreiningu, skipulagsmál og aðferðafræði (vinnuhópur 1); gagnreyndar íhlutanir og aðferðir (vinnuhópur 2); siðferðisleg álitamál við forgangsröðun í hjúkrun (vinnuhópur 3); menntunarmál og þjálfun (vinnuhópur 4).
Á meðal væntanlegra niðurstaðna má nefna aukna þekkingu á því hvernig hjúkrun er forgangsraðað og áhrifaþáttum þess og mörkun stefnu sem hefur öryggi sjúklinga að leiðarljósi.
Ísland er þátttakandi í verkefninu í gegnum hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala. Aðalfulltrúar Íslands eru dr. Helga Bragadóttir, dósent og forstöðumaður fræðasviðs í hjúkrunarstjórnun, og dr. Ingibjörg Hjaltadóttir, dósent og sérfræðingur í öldrunarhjúkrun, báðar við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala. Varamenn þeirra eru Elfa Þöll Grétarsdóttir, hjúkrunarfræðingur MSc, aðjúnkt, sérfræðingur í öldrunarhjúkrun, Háskóla Íslands og Landspítala og Sigrún Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur, dósent Háskóla Íslands.
(Fréttatilkynning)