Kæra samstarfsfólk!
I
Stefna Landspítala er leiðarljós okkar í daglegum störfum á spítalanum, rammi utan um áherslur okkar. Sjúklingurinn er ávallt í öndvegi. Stefnuþríhyrningurinn er einfaldur að sjá - en að baki hverju orði er mikil vinna fjölmargra starfsmanna og dýpri gögn. Vinnan hófst á vettvangi framkvæmdastjórnar, efld af stjórnendum spítalans og dýpkuð á stefnufundum með starfsmönnum í haust. Niðurstöður þeirrar vinnu skilaði sér svo aftur til framkvæmdastjórnar sem nýtti niðurstöðurnar til enn frekari útfærslu á fundi nú í vikunni (sjá myndbandið). Það var ánægjulegt að sjá að áherslur framkvæmdastjórnar, stjórnenda og starfsmanna hvað varðar þjónustuna eru í samhljómi. Ég vil enn og aftur þakka öllum þátttökuna í þessu mikilvæga verkefni - til að bæta þjónustuna þurfum við að tala einum rómi og við erum komin vel á veg.
II
Í morgun var sameiginlegur fundur fræðslunefndar og stjórnar læknaráðs Landspítala. Tilefnið var bréf sem sérfræðingar í bráðalækningum skrifuðu mér og ég fjallaði um síðasta pistli. Yfirskrift fundarins var; Bráðadeild Landspítala - starfsemi, neyðarástand og úrræði. Fyrir liggur að stjórnendur bráðadeildar sem og framkvæmdastjórn hafa gripið til ýmissa ráða vegna fráflæðisvandans og fleira er í farvatninu. Má þar nefna opnun útskriftardeildar á Landakoti, aukna þjónustutíma Hjartagáttar, þróun greiningardeildar o.s.frv. Engu að síður er jafn ljóst að þrátt fyrir aðgerðir sem hafa skilað árangri þá hefur vandinn vaxið hraðar en lausnirnar. Kjarni málsins er að um er að ræða kerfisvanda heilbrigðiskerfisins alls sem birtist á mest áberandi hátt á bráðamóttöku Landspítala. Það er samt svo að þó að mikilvæg bjargráð í þessari stöðu séu utan okkar áhrifasviðs þá skiptir allt sem við gerum innan spítalans einnig máli í þessu samhengi. Því var undirfyrirsögn fundarins ekki síður mikilvæg - samstillt heild til úrlausnar á langvarandi álagshút. Það er enn ýmislegt sem við getum unnið að í okkar eigin ferlum sem léttir álagi á bráðamóttöku og bráðalegudeildir og við eigum ekki að missa sjónar á tækifærum í því efni, þótt sannarlega sé nærvera fílsins í herberginu - skortur á úrræðum utan Landspítala - áþreifanleg. Þar munum við halda áfram að koma með hugmyndir og þrýsta á um lausnir.
III
Í dag fögnum við nýrri og endurbættri augndeild. Húsnæði deildarinnar hefur verið barn síns tíma en það er þar sem áður var Fæðingarheimili Reykjavíkur. Húsnæðið var í raun aldrei ætlað til heilbrigðisþjónustu en að undanförnu hafa miklar breytingar verið gerðar á því og tími til kominn. Þrátt fyrir umfangsmiklar framkvæmdir tókst útsjónarsömu starfsfólki að halda uppi starfsemi á meðan á atinu stóð. Markmiðið var að bæta flæði og ferla í starfseminni og í dag sátu nær allir starfsmenn Kaizenvinnustofu þar sem leitað var leiða til að draga úr sóun og auka virði fyrir sjúklinga. Það var Alþingi sem ákvað með síðustu fjárlögum að veita fé til að minnka biðlista eftir tilteknum aðgerðum. Landspítali fékk hluta þess fjár og hér er komið lýsandi dæmi um það hvernig góðar ákvarðanir verða að mikilvægu framfaraskrefi í þjónustu við almenning í meðförum starfsfólks Landspítala. Í dag fögnum við lokum framkvæmdanna með frábærum iðnaðarmönnum og afburða starfsfólki.
Hafið það gott um helgina hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson