Þannig lýkur María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítala, ritstjórnargrein sinni í 10. tölublaði Læknablaðsins sem hefur yfirskriftina „Landspítali og heilbrigðiskerfið – glöggt er gests augað “. Til umfjöllunar er ný skýrsla ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company sem unnin var að frumkvæði fjárlaganefndar og velferðarráðuneytis.
María segir að flestir læknar geti líklega tekið undir það álit sem fram kemur í skýrslunni að helstu áskoranir sem Landspítali standi frammi fyrir eigi sér kerfislægar skýringar. Því miður skorti á skýra stefnu um heilbrigðismál, ekki síst hvað forgangsröðun verkefna varðar en raunforgangsröðun fari fram með setningu fjárlaga.
María dregur fram í greininni ýmislegt um rekstur spítalans, meðal annars hvernig opinber útgjöld á föstu verðlagi til Landspítala hafa þróast. Til dæmis að árið 2015 hafi sjúkrahúsið verið rekið hallalaust fyrir svipað opinbert fjármagn (á föstu verðlagi) og í byrjun aldarinnar en fyrir verulega minna fé en í góðærinu svokallaða. Eftirspurn eftir þjónustu hafi samt aukist verulega vegna fjölgunar landsmanna og öldrunar þjóðarinnar en einnig vegna aukinnar byrðar langvinnra sjúkdóma.