Kæra samstarfsfólk!
Fæstir hafa farið varhluta af því að kosningar til Alþingis eru í nánd. Heilbrigðismálin hafa verið mikið í deiglunni og eru nú eitt helsta kosningamálið. Málaflokkurinn er flókinn og erfitt að gera honum skil á einfaldan hátt. Landspítali er hornsteinn íslenskrar heilbrigðisþjónustu og því ekki að undra að margir horfi til starfsemi okkar í þeirri orrahríð sem nú gengur yfir. Heilbrigðisútgjöld hafa farið stöðugt vaxandi samfara auknum verkefnum og öldrun þjóðarinnar en útgjöld hins opinbera hafa ekki fylgt þeirri þróun. Sér í lagi gildir þetta um Landspítala sem hefur verið fjársveltur frá stofnun. Í aðdraganda kosninga, nú þegar margir telja okkur komin fyrir helsta efnahagsvandann í kjölfar hrunsins, eru margir sem vilja rétta af rekstur spítalans og tryggja starfsfólki hans tækifæri til að sinna sjúklingum eins vel og hægt er. Við höfum metið það svo að viðbótarfjárþörf Landspítala sé um 11 milljarðar króna á árinu 2017, eins og kemur fram á myndinni sem hér fylgir. Með slíkum fjárhæðum náum við að halda í við raunkostnað þjónustunnar um leið og nýjungar sem lengi hefur verið beðið eftir eru fjármagnaðar. Þess væri óskandi að áherslur stjórnmálamanna á heilbrigðisþjónustu skiluðu sér með áþreifanlegum hætti inn á þjóðarsjúkrahúsið eftir kosningar. Tækifærið mun bjóðast strax enda fjárlög ársins 2017 enn nánast óskrifað blað.
II
Þau afar ánægjulegu tímamót eru um þessar mundir að ár er liðið frá því að átak í meðferð lifrarbólgu C hófst. Óhætt er að segja að vel hafi gengið og hafa nú þegar 250 manns lokið meðferð. Gert var ráð fyrir í upphafi að um 1.000 einstaklingum yrði boðin meðferð á tveimur árum og verkefnið er á áætlun. Það er öflugt teymi á Landspítala og sjúkrahúsinu á Vogi sem heldur utan um þetta mikilvæga verkefni og samstarfið hefur gengið mjög vel. Verkefnið hefur raunar hlotið heimsathygli enda einstakt að öllum sem smitaðir eru af þessum alvarlega sjúkdómi sé boðin meðferð. Ég óska öllum sem að málinu koma til hamingju með þetta frábæra verkefni.
III
Uppbygging Landspítala við Hringbraut er á fullri ferð. Framkvæmdir við sjúklingahótelið eru langt komnar og gert er ráð fyrir að þeim ljúki á fyrri hluta næsta árs. Í síðustu viku var ný aðkoma að uppbyggingarsvæðinu opnuð, fullnaðarhönnun nýs meðferðarkjarna er á fullum skriði og í gær urðu þau ánægjulegu tímamót að Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra tilkynnti að forval fyrir fullnaðarhönnun rannsóknarhúss hefði verið heimilað. Uppbygging við Hringbraut er svo sannarlega í góðum gangi. Sjá myndbandið.
IV
Það var ánægjulegt að vera viðstaddur vígslu málverks af Margréti Oddsdóttur skurðlækni nú í vikunni. Margrét var einn okkar allra fremstu skurðlækna en hún féll frá langt fyrir aldur fram. Það voru samstarfsfólk og vinir Margrétar sem sáu til þess að heiðra minningu hennar með þessum viðeigandi hætti og prýðir nú verkið vegg í stigagangi aðalbyggingar spítalans. Vígsludaginn bar upp á 3. október en þann dag hefði Margrét orðið 61 árs og því var einkar ánægjulegt að foreldar og fjölskylda sáu sér fært að vera með okkur við þetta hátíðlega tækifæri. Sjá myndbandið
Ég óska ykkur góðrar helgar hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson