Bent er á í skýrslunni að Landspítali hefur átt erfitt með að laða sérfræðilækna aftur til Íslands undanfarin misseri. Læknar sem snúa ekki aftur til Íslands nefna vinnuskilyrði sem eina helstu ástæðu þess að þeir starfi heldur erlendis. Skýrslan sýnir að á Landspítala er minna húsrými til athafna en á sænskum og breskum sjúkrahúsum. Húsrými á hvert klínískt stöðugildi er minna og ef tekið er tillit til meira álags og fleiri heimsókna og innlagna á hvert stöðugildi er ljóst að þrengra er um alla starfsemi á Landspítala en erlendum viðmiðunarstöðum.
Læknaráð Landspítala er sammála skýrsluhöfundum um að mikilvægt sé að leysa úr vandasömum verkefnum í rekstri sjúkrahúsins, s.s. stytta biðlista og koma á fót göngudeildarstarfsemi á Landspítala fyrir flóknari og þverfaglega þjónustu sérfræðilækna og efla getu til klínískrar ákvörðunartöku, með því að auka hlutfall sérfræðilækna í starfsmannahópi Landspítalans. Slíkt geti orðið þáttur í að skipuleggja með hagkvæmari hætti aðra hluta starfseminnar og stytta meðallegutíma og rekstrarkostnað. Þá telur læknaráð mikilvægt að mönnun og ráðningar sérfræðilækna þurfi að taka mið að sérstöðu Íslands og tryggi að vaktaálag og vinnutími utan dagvinnu sé hóflegur.
Skýrsluhöfundar benda á mikilvægi þess að tryggja nægjanlega afkastagetu í heilbrigðiskerfinu. Hægt sé að minnka þá áhættu á ýmsan hátt, t.d. með því að tryggja að laun og vinnuskilyrði sérfræðilækna séu í samræmi við það sem tíðkast alþjóðlega, eða með því að tryggja að fjöldi íslenskra lækna sé nægjanlegur til að heilbrigðiskerfinu sé ekki hætta búin ef hlutfall lækna sem snúa aftur til Íslands skyndilega lækkar.
Læknaráð Landspítala fagnar þessu ábendingum og er reiðubúið að vinna með heilbrigðisyfirvöldum að langtíma umbótum með hagsmuni og öryggi sjúklinga að leiðarljósi.