Í skýrslunni er fjallað um skort á sérfræðilæknum og áhrif þess að læknar þurfi að fara utan í sérfræðinám á íslenskt heilbrigðiskerfi. Þá er áhersla lögð á nauðsyn þess að fjölga sérfræðilæknum til að auka afköst, viðhalda reynslu og jafnvel fækka legudögum. Hjúkrunarráð tekur undir þessar staðhæfingar í skýrslunni. Álag á marga sérfræðilækna er mikið sem bitnar á skilvirkni, yfirsýn yfir meðferð sjúklinga og flæði á spítalanum.
Það kemur stjórn hjúkrunarráðs hins vegar á óvart hve umfjöllun um hjúkrun og hjúkrunarfræðinga hefur lítið vægi í skýrslunni. Þar kemur fram að fjöldi legudaga á hvert stöðugildi hjúkrunarfræðinga er um 75% meiri á Landspítala en á samanburðarsjúkrahúsunum tveimur og að yfirvinna hjúkrunarfræðinga hér sé mikil. Þá er dregin sú ályktun að legudögum megi fækka með fjölgun sérfræðilækna og þar með minnka þörf á hjúkrunarfræðingum. Hjúkrunarráð furðar sig á þessum ráðleggingum og hefði viljað sjá frekari rökstuðning. Í fyrsta lagi hefði verið gagnlegt að sjá úttekt á yfirvinnu hjúkrunarfræðinga og kostnaði sem henni fylgir. Í öðru lagi hvaða áhrif yfirvinna og hvíldartímabrot hafa á öryggi sjúklinga og starfsmanna, gæði þjónustu, veikindi starfsfólks og hvíldartímaréttindi. Í þriðja lagi úttekt á hvort unnin yfirvinna nægi til að minnka álag og halda nægum rúmafjölda opnum á Landspítala. Í fjórða lagi samanburð á yfirvinnu á Landspítala við samanburðarsjúkrahúsin. Þessa þætti vantar í skýrsluna. Hjúkrunarráð bendir líka á þá staðreynd að útskriftir tefjast einnig vegna skorts á hjúkrunarfræðingum á öðrum þjónustustigum - eins og endurhæfingu, hjúkrunarheimilum, heilsugæslu og heimahjúkrun.
Stjórn hjúkrunarráðs Landspítala lýsir yfir áhyggjum af litlu vægi hjúkrunar í ráðleggingum til úrbóta í heilbrigðiskerfinu í umræddri skýrslu. Mikill skortur er á hjúkrunarfræðingum nú þegar og vanmat á þeim skorti er grafalvarlegt mál. Skýrsla McKinsey er langt frá því að greina frá mönnunarvanda hjúkrunar á Landspítala og víðar. Nýliðun hjúkrunarfræðinga er ekki í takt við aukna þörf fyrir hjúkrunarfræðinga, hvað þá þann atgervisflótta sem raun ber vitni og þann fjölda hjúkrunarfræðinga sem fara á eftirlaun á næstu árum. Brýn þörf er á aðgerðaráætlun til að bæta mönnun í hjúkrun nú og til framtíðar.
Hjúkrunarráð leggur til að velferðarráðuneytið og ríkisstjórn Íslands kynni sér betur helstu áskoranir tengda mönnun hjúkrunar á Landspítala og þau tækifæri sem felast í uppbyggingu hjúkrunar á Íslandi.