Ég skrifa þennan pistil á leið heim frá Nuuk í Grænlandi, en þangað fór ég í fyrradag ásamt litlum hópi fagfólks af Landspítala. Tilgangur ferðarinnar var að endurnýja samstarfssamning við Sjúkrahús Ingiríðar drottningar í Nuuk og kanna hvort hægt sé að efla samstarfið við grænlenska heilbrigðiskerfið. Löng hefð er fyrir því að bráðatilfelli, einkum alvarleg slys og veikir nýburar, komi á Landspítala. Á mjög sérhæfðum sviðum, þar sem umfram geta er stundum til staðar hjá okkur, m.a. við hjartaþræðingar, nýrnasteinbrot, heilaaðgerðir o.fl. er einnig möguleiki á nánara samstarfi. Slíkt getur skilað dýrmætum tekjum til Landspítala, nýtt enn betur sérhæft starfsfólk og búnað - og síðast en ekki síst eflt tengsl við góð granna og bætt heilsu þeirra.
Ég er í aðra röndina uppveðraður en í hina röndina hugsi eftir þessa heimsókn. Það sló mig hversu rúmgóð og vel útbúin húsakynnin á spítalanum eru, samanborið við Landspítala og minnti það mig á löngu tímabæra uppbyggingu spítalans okkar. Það var áhugvert að sjá hversu gott það er þegar öll stjórn heilbrigðiskerfisins er á einni hendi, s.k. lóðrétt skipulag, sem einmitt var ein ráðlegginga McKinsey í nyútgefinni skýrslu. Þannig er hægt að veita þjónustu á viðeigandi stað og skipuleggja heimsóknir sérfræðinga reglubundið út á svæðissjúkrahús og heilsugæslustöðvar um allt Grænland. Heilbrigðisþjónusta í fámennum löndum eins og Grænlandi og Íslandi verður ekki dreifstýrt nema að takmörkuðu leyti, krafan um sérhæfingu er slík. Öll heilbrigðisþjónusta er Grænlendingum ókeypis, sem og öll lyf. Ég var mjög hrifinn að sjá að á Grænlandi er nýtt rafrænt sjúkraskrárkerfi sem gerir allri heilbrigðisþjónustu kleift að eiga samskipti án vandræða. Loks var áhugvert að sjá að ofan á sjúkrahúsinu er nýtt og glæsilegt sjúkrahótel, rekið af sjúkrahúsinu.
Þannig að þó að við getum margt boðið okkar góðu grönnum þegar kemur að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu - þá getum við líka ýmislegt af þeim lært. Fáir halda því fram að Grænland sé efnaðra þjóðfélag en Ísland og auðvitað á þjóðfélagið við mörg afar erfið heilsufarsvandamál að stríða; háan ungbarnadauða, alvarlega smitsjúkdóma, gríðarlegan geðheilbrigðisvanda, sem og erfiðleika við nýliðun og mönnun langt umfram það sem við þekkjum.
Það er sláandi að sem þjóðfélagi hefur Grænlendingum, í öllum sínum vanda, borið gæfa til að forgangsraða sínu fé og taka skynsamlegar ákvarðanir með jafnan aðgang óháð efnahag og búsetu og markvissa forgangsröðun að leiðarljósi. Fyrir vikið eru þeir langt komnir í uppbyggingu innviða í heilbrigðisþjónustu, í skipulagi og stjórnun heilbrigðisþjónustunnar og í nýtingu upplýsingatækni, meðal annars til fjarlækninga. Sjúklingurinn er í öndvegi.
-----
Ég hef stundum talað um "heilaga þrenningu" í rekstri sjúkrahúss; innviði - rekstrarfé og mönnun. Eitt verður ekki frá hinu slitið til að hið flókna gangverk þjónustunnar gangi eins og við viljum. Við höfum lagt áherslu á mannauðsmál undanfarin misseri, enda fyrirséð að stærsta ógn við okkar kerfi er mönnun. Við höfum bryddað upp á ýmsum nýjungum í mannauðsmálum og teljum áríðandi að raddir sem flestra starfsmanna heyrist. Nú í haust höfum við haldið 3 stefnufundi starfsmanna sem hafa verið vel sóttir og margar frábærar hugmyndir komið fram. Sjálfum fannst mér ánægjulegast að sjá hversu breið þáttakan var - það komu fulltrúar flestra stétta og allra sviða. Það er afar dýrmætt fyrir vinnuna sem framundan er. Þetta var í fyrsta sinn sem við höfum fundi af þessu tagi en reynslan er afar góð svo ég hlakka til að bjóða ykkur síðar til svona samtals.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson