Það er óhætt að segja að haustið hefjist með trukki og dýfu þetta árið. Síðustu daga og raunar vikur hefur álagið aukist jafnt og þétt og hafa síðustu dagar verið þeir allra annasömustu sem við höfum séð síðustu misseri. Við höfum frá áramótum stuðst við svokallaðan gátlista innlagna, þar sem fylgst er með innlögnum og álagi á deildum spítalans og stigum við spítalann eftir fjölda sjúklinga. Eins og fram kom í tilkynningu til starfsmanna á miðvikudag á innri vef spítalans þá höfum við þurft að stiga spítalann á hæsta stigi og samkvæmt honum gripið til ýmissa aðgerða til að tryggja eftir megni öryggi sjúklinga sem til okkar leita. Velferðarráðuneytinu sem og Embætti landlæknis var gert viðvart og leitað til nágrannasjúkrahúsa um aðstoð. Við höfum nýtt alla möguleika til gangayfirlagna á bráðadeildum og frestað skurðaðgerðum sem krefjast innlagna og hjartaþræðingum svo unnt væri að nýta dagdeildir fyrir legusjúklinga. Við fylgjumst áfram grannt með ástandinu en ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir láta starfsemina ganga við þessar erfiðu aðstæður.
Inflúensa A hefur greinst á spítalanum og er óhætt að segja að hún sé heldur snemma á ferðinni þetta árið. Sýkingavarnadeild greip strax til aðgerða, lokaði deildinni fyrir innlögnum, meðferð sjúklinga hófst strax og bólusetningar eru þegar hafnar. Ég hvet ykkur eindregið til að fá bólusetningu sem allra fyrst en á innri vef spítalans eru upplýsingar um hvar hjúkrunarfræðingar mannauðssviðs bjóða bólusetningu. Eins verður eftir því sem unnt er séð til þess að starfsmenn geti fengið bólusetningu á sinni starfseiningu. Afar mikilvægt er að við látum bólusetja okkur enda mikilvæg vörn fyrir okkar eigin heilsu en ekki síður fyrir þá viðkvæmu hópa sem við sinnum hér á Landspítala.
Að lokum langar mig að þakka starfsmönnum sem sóttu fyrsta stefnufund starfsmanna á Hótel Natura síðastliðinn þriðjudag. Hann var afar vel heppnaður og ánægja með framkvæmd hans. Eins og ég nefndi í síðasta pistli fjöllum við um stefnuáherslurnar fjórar; öryggismenningu, mannauð, þjónustu og stöðugar umbætur. Næstu fundir verða 20. og 22. september kl 12:45-16:00 og ég skora á ykkur að mæta. Skráning á fundina er á vef spítalans.
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson