PVC (pólivínylklóríð) er eitt algengasta plastið í lækninga- og hjúkrunarvörum. Undanfarin ár hafa rannsóknir sýnt að ýmis neikvæð áhrif á umhverfi og heilsu eru rakin til þess. Í PVC eru ýmis íblöndunarefni, til dæmis þalötin DEHP og BPA sem losna auðveldlega út í umhverfið. Efnin safnast fyrir í vefjum og komast inn í gegnum húð, öndun og meltingarfæri. Rannsóknir hafa sýnt að þalöt er að finna til dæmis í fylgju, brjóstamjólk, blóði og munnvatni. Aukin tíðni ýmissa sjúkdóma hefur að hluta til verið rakin til þess hversu útsettur einstaklingurinn er fyrir þalötum. Ekki er talin stafa bráð hætta af þalötum heldur er um að ræða möguleg hormónaraskandi áhrif hjá þeim sem eru útsettir fyrir þeim í lengri tíma. Rannsókn frá 2009 sýndi að styrkur niðurbrotsefna DEHP í þvagi fyrirbura tengdist því hversu útsettir þeir höfðu verið fyrir lækningavörum með DEPH.
Á Landspítala er áhersla á heilsu og umhverfi. Umhverfisstefna Landspítala hefur það að leiðarljósi að kaupa vörur og þjónustu sem uppfylla þarfir og hafa sem minnst áhrif á umhverfi og heilsu. Á síðustu misserum hafa ýmsar kröfur verið settar í útboð, m.a. óskað eftir vörum án PVC og latex.
Nánari upplýsingar:
• Hulda Steingrímsdóttir, verkefnastjóri umhverfis- og samgöngumála, rekstrarsviði, huldast@landspital.is
• Jóhanna Guðbjörnsdóttir viðskipta/hagfræðingur, kvenna- og barnasvið, johagudb@landspitali.is
• Kristín Jónsdóttir, innkaupadeild á fjármálasviði, krijonsd@landspitali.is
• Rakel B. Jónsdóttir, sérfræðingur í nýburahjúkrun, vökudeild á kvenna- og barnasviði, rakelbjo@landspitali.is