Kæra samstarfsfólk!
Að vanda var dregið úr starfseminni yfir mestu sumarmánuðina en lokanir á legurýmum voru með svipuðum hætti og undanfarin ár eða um 10% þegar mest var. Sumarið var annasamt og ég vil þakka öllum ykkar framlag til að starfseminnar. Sérstaklega vil ég þakka nemum og afleysingafólki fyrir hjálpina, það er okkar fólki afar mikilvægt að komast í frí og njóta sumarsins með fjölskyldu og vinum og vera þannig betur í stakk búið til að glíma við verkefni vetrarins.
Nú er starfsemin að mestu að færast í hefðbundið horf og flest legurými nú aftur opin. Afar mikið álag er á spítalanum um þessar mundir og ræður þar mestu mikið aðstreymi á spítalann, frestun framkvæmda hjá okkur og fleiri slíkir þættir. Því má segja að við höldum inn í haustið með trukki og dýfu.
Nýlega var deild 33 C í geðdeildarhúsi opnuð aftur eftir afar langþráðar endurbætur. Deildin sem er móttökugeðdeild bjó lengi við afar slæman húsakost og sennilega sú sem allra verst var farin hjá okkur af myglu og leka. Í ástandsskoðun sem gerð var á húsnæði Landspítala kom 33 C einna verst út og starfsfólk hefur gantast með að deildin hafi unnið ljótu-keppnina. En nú er aldeilis öldin önnur, deildin hefur öll verið endurnýjuð og komin í viðunandi horf sem styður við starfsemina. Ánægjulegt var að samhliða þessum framkvæmdum var ráðist í endurbætur á fjölskylduherbergi fyrir mæður með alvarlega geðsjúkdóma svo þær geti haft börn sín hjá sér.
Eins og við öll sem vinnum á Landspítala vitum er starfsemin hér gríðarlega fjölbreytt og dreifist um höfuðborgarsvæðið. Á Kleppi rekum við metnaðarfulla starfsemi á vegum geðsviðs. Þar er meðal annars að finna sérhæfða endurhæfingargeðdeild þar sem við sinnum ungu fólki á leið aftur út í lífið eftir veikindi. Á Kleppi eru fjölbreytt meðferðarúrræði fyrir þennan hóp og aðra sem þar dvelja og í þessu myndbandi fáum við að kynnast spennandi starfsemi deildarinnar.
Ég óska ykkur öllum góðrar helgar, hvort heldur þið hlaðið batteríin eða standið vaktina!
Páll Matthíasson.