I
Á síðasta ári var ný stefna Landspítala kynnt. Stefnan á að vera leiðarljós í daglegum störfum okkar á spítalanum þar sem sjúklingurinn er ávallt í öndvegi. Mótun stefnunnar var ánægjulegt ferli sem fjölmargir starfsmenn unnu að og hefur nú á þessu ári verið unnið að útfærslu hennar. Við viljum að sem flestir starfsmenn komi að þessu skemmtilega verkefni og nú í haust verða því haldnir þrír stórir stefnufundir sem ég hvet alla til sækja. Fundirnir fjalla um stefnuáherslurnar fjórar; öryggismenningu, þjónustu, mannauð og stöðugar umbætur. Fundirnir verða haldnir á Hótel Natura, 13., 20. og 22. september, kl. 12:45-16:00 og fólk velur þá dagsetningu sem hentar best. Það er mikilvægt í þessari vinnu að sem flestir taki þátt þar sem stefnan er vegvísir okkar allra. Gert er ráð fyrir um 200 starfsmönnum á hvern fund en ef áhugi er mikill verður fleiri fundum bætt við. Ég hvet starfsmenn til að skrá sig og leggja sitt lóð á vogarskálarnar í að móta framtíð Landspítala.
Skráning á fundina er hér.
II
Á stórum vinnustað eins og Landspítala verða ýmis tímamót sem vert er að minnast, misánægjuleg þó, eins og gengur.
Nú í ágúst 2016 eru liðin 40 ár frá því flutt var inn í hús 6 og 7 á Landspítalalóðinni við Barónsstíg og er því óhætt að segja að nokkuð hafi teygst á þeim 5-10 árum sem þessum húsum var ætlað að þjóna til bráðabirgða. Húsin voru reist sem bráðabirgðahús vegna gríðarlegra þrengsla í gamla húsi Rannsóknastofu Háskólans við Barónsstíg þar sem öll starfsemi meinafræði- og sýklafræðideildanna var til húsa. Nú er sýklafræðideildin í húsi 6 og að hluta í húsi 7 ásamt litningarannsóknadeildinni og reiknað er með að þau verði áfram í notkun þar til flutt verður í nýjan rannsóknarkjarna sem reistur verður við nýjan meðferðarkjarna við Hringbraut. Húsin hafa sinnt sínu hlutverki og eru orðin þreytt og úr sér gengin og löngu kominn tími á endurnýjun. Þau hafa engu að síður þjónað vel og starfsmennirnir minntust tímamótanna og verunnar í þeim með grillveislu í hádeginu 18. ágúst um leið og þeir vöktu athygli á húsnæðisvanda rannsóknarsviðs Landspítala.
III
Á morgun er Menningarnótt í Reykjavík og samhliða því hið árlega Reykjavíkurmaraþon. Að vanda fögnum við því að ótrúlegur fjöldi fólks hefur valið að styðja við fjölbreytta starfsemi spítalans með því að safna áheitum. Ég verð alltaf sérstaklega glaður þegar ég sé starfsfólk taka þátt í hlaupinu og safna áheitum fyrir starfsemina. Nú í ár ætlar til dæmis hópur starfsmanna á flæðisviði að taka á rás fyrir Grensás ásamt fjölmörgum öðrum velunnurum, meðal annarra forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Ég óska þeim öllum góðs gengis!
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson