Tölvukerfið nýja mun gjörbylta allri skráningu á viðkomandi deildum. Með CIS er stigið stórt skref að því takmarki að hætta handvirkri skráningu á pappír á deildum á Landspítala. Kerfið tengist nánast öllum þeim lækningatækjum sem notuð eru á þessum deildum og safnar upplýsingum úr þeim sjálfkrafa. Með nýja kerfinu verður úrvinnsla gagna um meðferð sjúklinga öll mun auðveldari. Keyptur verður mjög öflugur vélbúnaður sem er nauðsynlegur fyrir kerfi sem safnar svo miklu af gögnum. Þá er fyrirhugað að sett verði upp vinnustöð við hvert sjúkrarúm sem birtir allar upplýsingar um viðkomandi sjúkling.
Umtalsverð vinna starfsmanna Landspítala liggur að baki þessum áfanga og hefur stór hópur komið að henni. Nú tekur við það verkefni að undirbúa innleiðingu kerfisins. Gert er ráð fyrir að það verði tekið í notkun á fyrstu gjörgæsludeildinni í febrúar 2017. Fyrirhugað er að tölvukerfið komist í notkun á öllum ofangreindum deildum á því ári.
Mynd: Skrifað undir samning um tölvukerfi fyrir gjörgæslu, svæfingu og vökudeild - Alma D. Möller, Patric Hulsen, Hlíf Steingrímsdóttir og Jón Hilmar Friðriksson. Patrick er forstjóri Daintel í Danmörku, hin eru framkvæmdastjórar á Landspítala. Hlíf skrifaði undir samninginn sem staðgengill forstjóra.