Langflestir endurheimta fyrri nýrnastarfsemi
Við stórar skurðaðgerðir er mikið álag á nýrun ekki síst þegar sjúklingarnir eru tengdir við hjarta- og lungnavél þar sem blóðþrýstingur verður lægri en tíðkast við eðlilegar aðstæður. Þetta eykur hættu á nýrnabilun sem veldur m.a. því að líkaminn á erfitt með að losa sig við umframvökva og úrgangsefni. Oftast er um væga skerðingu á nýrnastarfsemi að ræða sem gengur yfir á nokkrum dögum en stundum getur þurft að beita meðferð með nýrnavél. Þess vegna er allt gert til að tryggja eðlilega nýrnastarfsemi í þessum aðgerðum.
Á seinustu árum hefur bráður nýrnaskaði eftir hjartaaðgerðir verið viðfangsefni fjölda rannsókna, enda um að ræða einn algengasta og alvarlegasta fylgikvilla þessara aðgerða. Íslensku rannsóknirnar sýndu að tíðni fylgikvillans hér á landi var sambærileg eða ívíð lægri en í nágrannalöndum okkar, en hún var 23% eftir ósæðarlokuskipti og 11% eftir kransæðahjáveitu.
Langflestir sjúklingar sem fengu nýrnaskaða við aðgerð endurheimtu nýrnastarfssemi á nokkrum vikum eftir aðgerð og sárafáir (<1%) þurftu á langvarandi blóðskilun í nýrnavél að halda.
2.000 sjúklingum fylgt eftir
Við rannsóknina var hægt að notast við miðlæga gagnagrunna hér á landi sem gerði kleift að fylgja eftir öllum sjúklingunum til langs tíma, bæði með tilliti til lifunar og nýrnastarfsemi. Rannsóknirnar náðu til rúmlega 2000 sjúklinga. Þetta gerir rannsóknirnar einstakar og hefur þýðingu út fyrir landsteinana. Rannsóknirnar voru unnar af doktorsnemunum Daða Helgasyni og Sólveigu Helgadóttur undir handleiðslu Tómas Guðbjartssonar prófessors en um er að ræða samstarfsverkefni læknadeildar Háskóla Íslands, hjarta- og lungnaskurðdeildar, svæfinga- og gjörgæsludeildar og nýrnadeildar Landspítala.
Greinarnar (pdf)
Acute kidney injury and outcome following aortic valve replacement for aortic stenosis.