Nú líður að því að breytingar á starfsemi Landspítala vegna sumarleyfa nái hámarki. Verulega dregur úr valkvæðri starfsemi og sumarlokanir einstakra deilda taka gildi. Bráðastarfsemin er þó með svipuðum hætti og miklar annir eru á bráðamóttökum og bráðalegudeildum. Samhliða þessu tökum við á móti nærri þúsund sumarstarfsmönnum sem sannarlega eru velkomnir. Langstærsti hópurinn er auðvitað ungt fólk og það ríður á að við tökum vel á móti þessu góða fólki og kynnum því vandlega starfsemina og vinnulagið hjá okkur. Vonandi verður viðkynning þess með þeim hætti að það finni fjöl sína hér á Landspítala í framtíðinni.
Nýlega voru birtar á innri vef landspítala reglur fyrir starfsmenn um mynd- og hljóðupptökur. Meginreglan er sú að notkun eigin tækja til upptöku hvers kyns hljóð- og/eða myndefnis a Landspítala í tengslum við meðferð sjúklinga er óheimil. Ég vil hvetja alla starfsmenn til að kynna sér reglurnar rækilega og framfylgja enda afar mikilvægt að trúnaður við sjúklinga sé virtur í hvítvetna. Hvað sjúklinga og ættingja varðar gildir í raun það sama, upptökur eru óheimilar enda hafa fjölmargar deildir spítalans komið upp skiltum þar sem þetta er áréttað.
Sem stærsta stofnun landsins lítum við á Landspítala á það sem okkar samfélagslegu ábyrgð að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum. Umhverfisstefna Landspítala er leiðarvísir okkar í daglegum rekstri þessarar fjölbreyttu stofnunar. Við höfum gert margt til að fækka vistsporum Landspítala, t.d. með því að minnka matarsóun, draga úr notkun á einnota vörum og auka flokkun úrgangs. En við höldum áfram veginn og nú hefur Landspítali samþykkt loftlagsmarkmið ásamt 100 íslenskum fyrirtækjum og stofnunum, Reykjavíkurborg og Festu. Markmið Landspítala er að árleg losun koltvísýrings verði 40% minni árið 2020 heldur en árið 2015. Þar munar 1.520 tonnum, eða því sem samsvarar árlegum akstri 450 fólksbíla. Þetta er metnaðarfullt umhverfismarkmið en ég er ekki í nokkrum vafa að það mun nást enda ásetningurinn einbeittur.
Eitt af lokaverkum margra fyrir sumarfrí var þátttaka fjölda starfsmanna á kynningar- og samráðsfundi um forhönnun meðferðarkjarnans. Hér er um meiri háttar verkefni að ræða enda ein flóknasta, ef ekki flóknasta, hönnun sem ráðist hefur verið í á Íslandi. Öll hönnun er yfirfarin og skipulag með aðferðarfræði Lean í forgrunni - við viljum einfalda alla ferla og gera flæðið sem skilvirkast. Framundan er svo fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans sem verður tilbúin 2018. Þá tekur við framkvæmdatími sem lýkur árið 2023 - ekki degi of snemma.
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson