Rannsókn sem gerð var á Íslandi staðfestir hversu hættulegt rof á ósæð í brjóstholi er. Þannig létust 18% sjúklinga áður en þeir náðu á sjúkrahús, önnur 21% dóu innan sólarhrings eftir komu á sjúkrahús og þegar allt var talið létust 55% innan 30 daga frá greiningu. Nýlega var í European Journal of Cardiothoracic Surgery birt grein um þessa mikilvægu rannsókn á sjúklingum með svokallaða flysjun (e. disscetion) eða rof á ósæð í brjóstholi. Greinin er samstarfsverkefni hjarta- og lungnaskurðdeildar Landspítala og læknadeildar HÍ.
Þetta er með hættulegustu sjúkdómum en tíðnin frekar lág hér á landi. Af þeim sem gengust undir bráðaskurðaðgerð var dánarhlutfallið lægra, eða 28%, sem er sambærilegur árangur og á stærri sjúkrahúsum erlendis. Þessar niðurstöður undirstrika mikilvægi þess að greina rof á ósæð sem fyrst og koma þeim sjúklingum sem það þurfa í bráðaskurðaðgerð, sem er eina læknandi meðferðin. Á Íslandi greinast 5-8 tilfelli árlega, sem af óskýrðum ástæðum er heldur lægri tíðni en í nágrannlöndum okkar. Sú tíðni hélst óbreytt á 22 ára tímabili, sem er á skjön við erlendar rannsóknir sem flestar hafa sýnt vaxandi tíðni.
Erfið greining og há dánartíðni
Ósæðin er stærsta æð líkamans og miðlar blóði út hjartanu til hinna ýmsu líffæra líkamans. Í hvíld miðlar ósæðin um 5–6 lítrum af blóði en allt að 10 lítrum í áreynslu. Rof eða flysjun á æðinni getur því leitt til mikillar blæðingar og losts á nokkrum mínútum. Þekkt er að ósæðin getur rofnað við alvarlega áverka eins og eftir bílslys en fáir lifa slíka áverka af. Algengara er að rof verði vegna sjúkdóma í æðaveggnum. Rof á ósæð verður oftast fyrirvaralaust, sérstaklega hjá eldri karlmönnum með ómeðhöndlaðan háþrýsting eða sjúklingum sem hafa sjaldgæfa bandvefssjúkdóma.
Rof á ósæðinni er sjaldgæft en lífshættulegt fyrirbæri, sérstaklega ef æðin rofnar nálægt hjartanu eða þar sem slagæðar liggja upp til heilans. Algengasta einkennið eru slæmir brjóstverkir, mæði vegna hjartabilunar og einkenni frá taugakerfi. Þessi einkenni tengjast mun oftar algengari sjúkdómum eins og kransæðastíflu eða heilaslagi. Því verður oft töf á réttri greiningu ósæðarrofs sem eykur dánarlíkur.Meðferð ósæðarrofs nálægt hjartanu og heilaslagæðum er opin hjartaskurðaðgerð. Þetta eru einhverjar stærstu skurðaðgerðir sem gerðar eru, hjartað er stöðvað og rofnu æðinni skipt út fyrir gerviæð. Slökkt er á hjarta- og lungnavélinni og líkami og heili sjúklingins kældir niður í 18 gráður. Þetta gefur skurðlækninum 20-40 mínútur til að lagfæra þann hluta ósæðarinnar sem tengist heilaæðum. Um fjórði hver sjúklingur lifir ekki af aðgerðina og er dánartíðni enn hærri ef aðgerð dregst á langinn. Þess vegna eru þessar aðgerðir reyndar um leið og greining liggur fyrir.
Einstök rannsókn
Rannsóknin er einstök þar sem hún nær til heillar þjóðar og ekki aðeins sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð heldur einnig þeirra sem greindust fyrst við krufningu eða létust fyrir komu á sjúkrahús. Svo viðamikil rannsókn hefur ekki verið gerð áður á sjúklingum með þennan sjúkdóm. Samtals náði rannsóknin til 152 sjúklinga (meðalaldur 67 ár, 61% karlar) sem greindust á Íslandi 1992-2013. Reyndust 2/3 þeirra hafa hættulegri gerð ósæðarrofs þar sem beita verður bráðaskurðaðgerð til að bjarga lífi sjúklingsins.
Fyrsti höfundur greinarinnar er Inga Hlíf Melvinsdóttir unglæknir. Rannsókninni stýrði Arnar Geirsson, sérfræðingur í hjarta- og lungnaskurðlækningum, sem hefur sérhæft sig í meðferð flókinna ósæðarsjúkdóma. Rannsóknin er liður í stóru samnorrænu rannsóknarverkefni á ósæðarrofi og árangri skurðaðgerðar við því (NORCAAD study) en hún nær til 8 sjúkrahúsa á Norðurlöndunum og er stýrt af Tómasi Guðbjartssyni prófessor.