Það hefur ríkt sannkallað EM æði hjá sjúkraþjálfunni á Landakoti að undanförnu sem kemur að vísu ekki alveg til af góðu. Drifkraftur í þeirri stemningu sem skapast hefur er Már Gunnarsson sem þar hefur verið í sjúkraþjálfun. Már er liðsmaður hins öfluga stuðningsmannahóps íslenska knattspyrnulandsliðsins, Tólfunnar. Það stóð aldeilis ekki til hjá Má að vera þessa dagana í sjúkraþjálfun, þvert á móti átti hann miða á landsleik Íslands og Portúgals í byrjun Evrópumótsins. Þá fór sem fór og slysin gera ekki boð á undan sér. Már var skipta um buxur heima hjá sér og flækti sig í þeim með þeim afleiðingum að hann datt og brotnaði á öxl, skaddaðist á mjöðm og fékk fleiri áverka. Draumurinn um EM varð að engu en Már hefur hefur hins vegar ekki látið deigan síga og verið öflugur fulltrúi Tólfunnar hér heima, þar á meðal á Landakoti. Og fyrst svona fór... þá er bara að vinna Englendingana!