Landspítali tekur 28. júní 2016 upp nýja mælingu til stýringar á blóðþynningarlyfinu warfarin (Kóvar). Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir blóðmeinafræðideildar og prófessor við læknadeild H.Í., og Brynja R. Guðmundsdóttir, þróunarstjóri á blóðmeinafræðideild, hafa undanfarin átta ár unnið að þróun og prófunum á nýju storkuprófi, Fiix-prothrombin tíma (Fiix-PT; Fiix-NR). Fiix-NR gefur nákvæmari og réttari mynd af blóðþynningunni á hverjum tíma. Það eykur stöðugleika meðferðarinnar en stór framsæ rannsókn á Landspítala, Fiix-rannsóknin, bendir einnig til þess að sjúklingum farnist betur sé warfaríni stýrt með Fiix-NR í stað prothrombin tíma (INR; PT-INR).
Öruggari meðferð
Um 2% Íslendinga taka blóðþynningarlyf að jafnaði vegna hjarta- og æðasjúkdóma til að koma í veg fyrir blóðtappamyndun og nota margir þeirra Kóvar. Verkun blóðþynningarlyfja er skammtaháð og óstöðugleiki blóðþynningar getur annars vegar valdið blóðtappa og hins vegar blæðingu.Í þau tæp 60 ár sem warfarin hefur verið á markaðnum hefur prothrombin tími verið notaður til að stýra skammtastærð lyfsins fyrir sjúklinga (svar gefið út sem INR) en finna þarf réttan skammt fyrir hvern einstakling. INR mælir þrjá K-vítamínháða storkuþætti (II, VII og X) en nýja prófið mælir einungis tvo þeirra (II og X). Í gamla prófinu var storkuþáttur VII mældur en hann hefur þó ekki mikil áhrif á blóðstorkumyndunina í sjúklingum á Kóvar. Storkuþáttur VII hefur hins vegar haft veruleg áhrif á niðurstöður mælinga sem hafa því ekki gefið rétta mynd af blóðþynningunni og óstöðugleikinn veldur óþarflega miklum skammtabreytingum. Nýja prófið, Fiix-NR, gefur stöðugri mynd af blóðþynningu sjúklings sem þarfnast því færri breytinga á lyfjagjöf því sjúklingar haldast betur innan meðferðarmarka. Með þessari breytingu fá sjúklingar því stöðugri blóðþynningu en Fiix rannsóknin bendir til þess að það auki árangur hennar án þess að öryggi sé fórnað.
Landspítali fyrstur til að taka prófið upp
Páll Torfi, Brynja og samverkamenn þeirra gerðu tveggja ára framsæja og blindaða rannsókn milli áranna 2012 og 2014 á nýja prófinu, svokallaða Fiix-rannsókn. Niðurstöður hennar voru birtar í Lancet Haematology 2015 og sýndu að 50% færri sjúklingar fengu blóðtappa til langs tíma þegar nýja prófið var notað til að stýra Kóvar. Nú hafa 4 vísindagreinar verið birtar í virtum erlendum vísindaritum um prófið auk fyrirlestra og kynninga á alþjóðlegum vísindaþingum í Reykjavík, Milwaukee, San Francisco, Chicago, Orlando og Tel Aviv. Í samstarfi við Háskóla Íslands og Landspítala var sótt um einkaleyfi á prófinu og hefur það fengist í Bandaríkjunum, Kína og Evrópu. Landspítali verður fyrsti spítalinn til að taka prófið upp í almennri meðferð.