Að vanda er í mörg horn að líta á spítalanum. Álagið hefur verið mikið og síðasta vika var sérstaklega annasöm þar sem saman fóru sumarlokanir deilda (skipulagðar svo starfsfólk komist í sumarfrí) og síðasta vika fyrir sumarpásu af átakinu til að minnka biðlista eftir aðgerðum. Allt hafðist þetta þó að lokum og spítalinn gat að vanda sinnt þeim fjölmörgu sem til hans leita eftir lækningu og líkn. Álagið hefur samt haldið áfram að aukast í allt vor og dag eftir dag er bráðamóttaka spítalans í Fossvogi full af fólki sem bíður þess að rúm finnist inni á yfirfullum spítalanum. Maður vill ekki hugsa þá hugsun til enda hvað gerst hefði ef Landspítali hefði ekki gripið til aðgerða í vor til að taka á fráflæðisvanda - og vil ég þá sérstaklega nefna útskriftardeildina á Landakoti; ómissandi áfanga á leið margra heim aftur og deild sem verður að tryggja fullnægjandi fjármögnun.
Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að nú þegar séu komnir fleiri góðviðrisdagar á höfuðborgarsvæðinu heldur en allt sumarið í fyrra. Það er líka alltaf bjartara yfir þegar okkur gengur vel í íþróttum! Það hefur verið hreint ævintýri að fylgjast með framgangi karlalandsliðsins í fótbolta á EM. Fyrir þau okkar sem hlustuðu á Heimi Hallgrímsson, þjálfara landsliðsins, tala á stjórnendafundi á Landspítala í vetur þá þarf árangurinn hins vegar ekki að koma á óvart. Markviss og þrotlaus vinna og skynsamlegt leikplan sem byggir á styrkleikum liðsmanna - og allt hvílir þetta á þeim grunni sem fjárfesting í innviðum fótboltans (íþróttavöllum, þjálfurum o.s.frv.) skapar. Það þarf ekki að teygja sig langt í samanburðinum til að sjá líkindin við árangur heilbrigðiskerfisins. Hann snýst um öflugt fólk sem vinnur markvisst eftir stefnu að sama markmiði - en byggir líka á grunni góðra, vel fjármagnaðra innviða (aðstöðu og menntunar). Með viðunandi fjármögnun eru fá takmörk fyrir þeim árangri sem íslenska heilbrigðiskerfið getur náð.
Landspítalinn hefur heldur ekki látið sitt eftir liggja í íþróttunum. Um daginn héldum við Norrænu sjúkrahúsleikana, þar sem yfir 700 íþróttamenn norrænna sjúkrahúsa kepptu í 14 íþróttagreinum. Það er skemmst frá því að segja að Landspítali stóð sig frábærlega og vann farandbikar fyrir að vinna til flestra verðlauna á leikunum. Þar er vel að verki staðið og rúsínan í pylsuendanum á einstaklega vel skipulögðum og skemmtilegum leikum. Það sem stendur þó upp úr er annað; frábær fórnfýsi og vinnusemi þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða af spítalanum sem áttu þátt í að láta þessa viðamiklu íþróttaleika ganga upp. Kærar þakkir til ykkar allra.
Hafið það gott um helgina hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson