Helstu markmið samningsins:
- Gegnsærri aðferðir við fjármögnun þar sem þjónustan er kostnaðargreind.
- Skynsamlegri úthlutun fjármagns í heilbrigðiskerfinu og betri nýting fjármuna.
- Aukin skilvirkni og bætt eftirlit með gæðum og hagkvæmni þjónustunnar.
- Að skilja betur á milli hlutverka kaupanda og seljanda þjónustunnar.
Samningur Landspítala og Sjúkratrygginga Íslands miðast við að framleiðslutengd fjárframlög til sjúkrahússins verði tvíþætt og skiptist í fastar greiðslur (40%) og breytilegar greiðslur (60%). Breytilegi hlutinn reiknast út frá umfangi þjónustunnar, þ.e. fjölda verka og DRG-greiðslueininga sem að baki liggja. Fasti hlutinn tekur mið af áætluðu umfangi þjónustunnar, þ.e. fjölda verka sem samið er um fyrirfram. Fastar greiðslur verða greiddar fyrirfram, fyrsta dag hvers mánaðar en breytilegu greiðslurnar fara fram samkvæmt bráðabirgðauppgjöri hvers liðins mánaðar og síðan með heildaruppgjöri að ári liðnu.
Framleiðslutengd fjármögnun felur í sér að í stað þess að byggja fjármögnun sjúkrahúss alfarið á föstum fjárlögum, sem ákveðin eru ár fram í tímann, er meginhluti fjármögnunarinnar byggður á ítarlegri kostnaðargreiningu þeirra verka sem þar eru unnin og teljast til klínískrar starfsemi. Með því eiga framlögin að samræmast raunverulegum kostnaði þannig að auðvelt verði að sjá hvernig fjármunum er varið og hvernig þeir nýtast. Við fjármögnun Landspítala er gert ráð fyrir að meginhluti rekstrarins verði framleiðslutengdur (þ.e. klíníski hlutinn) en verkefni sem t.d. tengjast hlutverki hans á sviði kennslu og vísinda, stofnkostnaður, meiri háttar viðhald o.fl. verða fjármögnuð samkvæmt föstum fjárlögum, auk sértekna og gjafa.
Þessi fjármögnunaraðferð er nýmæli hér á landi en hefur tíðkast lengi víða erlendis, m.a. í sjúkrahúsrekstri annars staðar á Norðurlöndunum. Mikil undirbúningsvinna hefur í mörg ár farið fram innan Landspítala í tengslum við flokkun og skráningu samkvæmt svonefndu DRG-kerfi og er sú vinna forsenda samningsins sem undirritaður var.
Dæmi um skiptingu
á heildarumfangi rekstrar Landspítala og fjármögnun samkvæmt breyttu kerfi
80% framleiðslutengd fjármögnun (DRG) Fastur hluti (40%) miðast við umsamda áætlaða framleiðslu. Breytilegur hluti (60%) miðast við raunframleiðslu. |
20% óháð framleiðslu Ríkisframlag óháð DRG fjármögnun + styrkir, gjöld og gjafir til að fjármagna kennslu, rannsóknir, o.fl. verkefni, auk stofnkostnaðar og viðhaldsverkefna. |
Hvað er DRG?
DRG (Diagnosis Related Groups) er heiti alþjóðlegs flokkunarkerfis sem notað er á sjúkrahúsum til að búa til einsleita sjúklingaflokka sem hver um sig tekur mið af sjúkdómsgreiningu sjúklings, aðgerðum, meðferðum, kyni, aldri og eðli útskriftar. Hver flokkur er verðlagður sem gerir kleift að skilgreina allan kostnað að baki hverri aðgerð/meðferð og sjá nákvæmlega hvernig fjármunum er varið.