Í gær voru Norrænu sjúkrahúsleikarnir settir í Hörpu við skemmtilega athöfn. Um 800 þáttakendur eru að þessu sinni í mótinu og jafnast það á við þáttökuna í Smáþjóðaleikunum sem hér fóru fram í fyrra. Það eru ríflega 40 ár síðan Norrænu sjúkrahúsleikunum var hleypt af stokkunum í Danmörku en aðeins í annað sinn sem þeir eru haldnir hér á Íslandi og því öllu til tjaldað til að gera umgjörina sem besta. Tilgangur leikanna er fyrst og fremst að efla góð samskipti milli frænda og vina á Norðurlöndunum og það fór ekki á milli mála í gærkvöldi að þar voru fagnaðar- og vinafundir. Keppni hófst í dag og verður framhaldið á morgun og ég hvet ykkur eindregið til að líta við í Laugardalnum og víðar og hvetja okkar fólk.
Álag á bráðamóttöku spítalans hefur verið mjög mikið nú í júní, á tíma þegar þess mætti vænta að um hægðist. Lokanir eða minnkuð sumarstarfsemi annarra heilbrigðisstofnana hefur þar áhrif því fólk leitar þá í auknum mæli til Landspítala. Sumarlokanir deilda á Landspítala valda því einnig að þröngt er fyrir á fleti. Er þó gripið til sumarlokana í eins litlum mæli og hægt er - en auðvitað þarf starfsfólk að komast í langþráð sumarfrí og það er ekki nóg af starfsfólki til afleysinga. Því kvíðir margt starfsfólk sumrinu á spítalanum og er ekki að undra.
Þetta undirstrikar þann vanda sem mun í vaxandi mæli einkenna heilbrigðiskerfið á næstu árum en það er skortur á fagfólki. Mjög mikilvægt er að heilbrigðis- og menntamálayfirvöld taki höndum saman og vinni markvisst að því að efla fjölbreytt nám í heilbrigðisgreinum og að gera störf í heilbrigðisvísindum sem mest spennandi. Það er ærið verkefni, en afar mikilvægt.
Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin.