Nýtt lyfjablöndunarkerfi hefur verið tekið í notkun í krabbameinslyfjablöndun sjúkrahúsapóteks Landspítala. Nýja kerfið, BD Cato, heldur utan um og skráir nákvæmlega hvaða lyf ,í hvaða magni og í hvaða innrennslisvökva hver og einn sjúklingur fær blandað. Einnig aðstoðar kerfið lyfjafræðinga og lyfjatækna að tryggja betur en áður að allar blöndur séu blandaðar rétt og eftir réttum formerkjum. Hvort tveggja eykur öryggi sjúklinga í krabbameinslyfjameðferð á Landspítala.
Annar veigamikill öryggisþáttur sem BD Cato býður upp á er að vigta hvað fer mikið af lyfi í hverja blöndu. Það tryggir að hvorki of mikið né of lítið af lyfi sé notað. Nýir merkmiðar fylgja kerfinu með mun betri upplýsingum og á þeim eru líka einkvæm strikamerki fyrir hverja blöndu. Til þess að geta nýtt þennan möguleika þurfti samhliða upptöku kerfisins að skipta út blöndunarskápum einingarinnar þar sem elstu skáparnir höfðu verið í notkun í hartnær 20 ár og voru komnir að hættumörkum í öryggi. Til að koma nýju skápunum fyrir þurfti að stækka blöndunarherbergið. Flutningur skápanna gekk hratt og örugglega þar sem samstillt átak starfsmanna margra deilda spítalans skilaði verkefninu í höfn með lágmarks raski.
Verkefni sem leiðir af þessum breytingum er að eftir áramótin er stefnt að því að prufukeyra svokallað „closed loop medication“ þar sem hvert þrep frá ávísun læknis að lyfjagjöf til sjúklings verður rekjanlegt með öruggum hætti. Stefnt er að því að nýja lyfjablöndunarkerfið tengist svonnefndu Ariakerfi þannig að lyfjaávísanirnar flæði í gegn og við hinn endann verður hægt að skanna saman strikamerki lyfjablöndunar við ávísunina og strikamerki sjúklingsins.