Nú er rétt tæp vika þar til Norrænu sjúkrahúsleikarnir hefjast hér í Reykjavík en þeir standa yfir 9-12. júní. Það er Landspítali sem býður til leikanna að þessu sinni og undirbúningur hefur staðið yfir í marga mánuði. Keppt verður í fjórtán greinum og Landspítali ætlar sér stóra hluti í þeim öllum. Stífar æfingar hafa staðið yfir og ekkert verður gefið eftir, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi. Áfram Landspítali!
Snemma árs hóf Landspítali átak til að stytta bið sjúklinga eftir liðskiptaaðgerðum sem og augnsteinaaðgerðum og hjartaþræðingum. Er skemmst frá því að segja að þrátt fyrir þungan vetur hefur átakið tekist eins og áætlanir spítalans sögðu til um og hefur verulega saxast á biðlista. Samningar við velferðaráðuneytið gerðu ráð fyrir 1.036 liðskiptaaðgerðum á Landspítala og hafa 440 þeirra verið gerðar og gert er ráð fyrir að við gefum enn frekar í síðari hluta ársins. Við höfum sömuleiðis náð að ljúka tæplega helmingi þeirra augnsteinsaðgerða sem áætlanir gerðu ráð fyrir á árinu samkvæmt samningi.
Starfsfólk Landspítala sem unnið hefur að þessu mikla átaki á heiður skilinn fyrir dugnað og útsjónarsemi. Ég veit að ég færi þeim ekki aðeins mínar þakkir heldur einnig ánægðra sjúklinga.
„Lengi tekur sjórinn við“ var viðkvæði hér áður fyrr og ég velti því fyrir mér nú í upphafi sumars hvort viðkvæðið sé að verða „lengi tekur Landspítali við“. Raunar erum við afskaplega stolt af því að vera höfuðvígi heilbrigðisþjónustu á landinu og tökum á móti öllum sem til okkar leita. Þó höfum við vissulega áhyggjur eins og margir sem innviðum landsins sinna, í ljósi sívaxandi ferðamannastraums. Ekki hefur verið gert ráð fyrir auknu álagi á þjónustu Landspítala vegna þessa og ýmsir takmarkandi þættir í starfseminni gera okkur ekki auðvelt að mæta slíku, þrátt fyrir mikinn vilja. Aðstreymi á bráðamóttökur okkar er öllu jafna mjög mikið og fer vaxandi en fráflæði fullmeðhöndlaðra sjúklinga er fjarri því að vera viðunandi.
Landspítali hefur gjarnan reitt sig á að nágrannasjúkrahúsin sinni sjúklingum af þeirra upptökusvæði þegar álagið er hvað mest á Landspítala. Það er því mikið áhyggjuefni að nú hafa einhver þeirra tilkynnt um samdrátt í starfsemi sinni í sumar vegna fjárhagsvanda og munu vísa frá sér sjúklingum. Verkefni þessara stofnana velta því yfir á Landspítala sem er ekki í fjárhagslegri stöðu til taka á sig slíkar byrðar. Hins vegar verður ekki einungis horft til slíkra þátta þegar sjúkrahúsrekstur er annars vegar, skyldurnar eru fyrst og síðast við sjúklinginn, hann hlýtur alltaf að vera í öndvegi.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson