Landspítali mun áfram sjá um rekstur hjúkrunarþjónustu sjúkrahótels Landspítala sem tímabundið er staðsett á deild L2 á Landakoti eða þar til nýtt sjúkrahótel tekur til starfa á lóð Landspítala á árinu 2017.
Á L2 er gert ráð fyrir allt að 9 rýmum fyrir sjúkrahótelsgesti og eru þau ætluð fyrir þá sem þurfa á hjúkrun að halda fyrir heimferð á sama hátt og áður var. Engin regluleg læknisþjónusta er veitt til gesta sjúkrahótelsins.
Til að sækja um dvöl fyrir sjúklinga á sjúkrahóteli L2 þarf að gera beiðni í Heilsugátt – Allar aðgerðir – tilvísun á sjúkrahótel og tilgreina þá þjónustu sem óskað er eftir, hvenær óskað er eftir komu sjúklings og lengd dvalar. Enn sem fyrr eiga gestir sjúkrahótelsins að vera sjálfbjarga með að komast fram úr rúmi og að sinna daglegum athöfnum þar sem þeir eru skráðir í þjónustuflokkinn Gestir á Sjúkrahóteli. Sjúkrahótelsgestir þurfa að hafa með sér öll hjálpartæki sem þeir þurfa að nota svo sem stómavörur, bleyjur, hjólastóla, göngugrindur og hækjur. Sama gildir um öll lyf.
Meginregla varðandi læknisþjónustu fyrir sjúkrahótelsgesti er að sá læknir sem sækir um sjúkrahótel (tilvísandi læknir) er ábyrgur fyrir læknisþjónustu sjúklings. Engin regluleg læknisþjónusta til gesta sjúkrahótels er veitt af læknum L2 eða vakthafandi læknum á Landakoti.
Komi upp læknisfræðileg vandamál hjá gesti sjúkrahótels mun hjúkrunarfræðingur ræða símleiðis við tilvísandi lækni. Læknar Landakots munu eingöngu vera hjúkrunarfræðingum til ráðgjafar í einstökum tilvikum, aðallega í neyðartilvikum.
Sjúkraþjálfun verður áfram veitt þeim sem eru skráðir sem Gestir á sjúkrahóteli. Dvöl á sjúkrahóteli er ekki endurhæfingarinnlögn á öldrunarlækningardeild.
Vakin er athygli á því að öll rými eru í fjölbýlum. Aðstandendur og fylgdarmenn geta ekki gist á sjúkrahótelinu á L2. Öll herbergin eru reyklaus, með sameiginlegu baðherbergi, síma og sjónvarpi í setustofu. Gistingu fylgir fullt fæði frá eldhúsi Landspítala. Gjald fyrir dvöl á sjúkrahóteli L2 verður ekki tekið fyrst um sinn eða þar til annað veður ákveðið. Sömu frábendingar gilda sem fyrr hvað varðar þá sem eru virkir fíklar, heimilislausir og eru með geðrænar ógnandi truflanir.
Þjónusta hjúkrunarfræðinga verður sú sama og áður og biðjum við um að tekið sé tillit til þessara óska.
Hægt er að hafa samband við sjúkrahótelið L2 ef um einhver vafaatriði er að ræða í síma 543 9450/9455
(Tilkynning frá flæðisviði)