Við höfum nú frá árinu 2011 verið á umbótavegferð og notað til þess aðferðarfræði straumlínustjórnunar. Við höfum náð miklum árangri á ýmsum sviðum með þessum hætti og umbótaverkefnin okkar fjölmörg og fjölbreytileg. Fókusinn er alltaf sá sami - að auka gæði og minnka sóun. Um þúsund starfsmenn Landspítala hafa þegar tekið þátt í verkefnum sem telja á annað hundrað. Stundum er sagt að það taki að minnsta kosti áratug að innleiða straumlínustjórnun og ég er afar stoltur af árangrinum sem við höfum þegar náð, nú í hálfleik. Þessi vegferð byggir á þáttöku starfsmanna en grunnurinn er það öfluga starf, ásamt þrotlausri vinnu verkefnastofu Landspítala og öflugs hóps Leanþjálfara. Mig langar að nota þennan vettvang og þakka öllu þessu frábæra fólki.
Mikilvægi sýkingavarna á nútímasjúkrahúsum verður ekki of oft áréttað. Sérstaklega er mikilvægt fyrir okkur sem glímum við áskoranir í húsnæðismálum að huga að því að sem við getum sjálf gert til að minnka líkur á spítalasýkingum. Áhrifaríkasta leiðin býr hjá hverjum og einum - handþvottur! Sýkingavarnadeild spítalans hefur unnið að vitundarvakningu um mikilvægi handþvottar, eins og vonandi flestir hafa orðið varir við. Áherslan er á réttan handþvott og það að fólk beri ekkert handskart, enda vel þekkt að sýkingavaldar leynast helst á höndum þeirra sem slíkt bera. Í nýlegri samantekt deildarinnar kom fram að þrjár deildir; vökudeild, fæðingarvakt og K2 hafa náð þeim fyrirmyndarárangri að enginn starfsmaður ber handskart. Af verri endanum voru þau tíðindi að sú stétt sem hvað skrautlegust er til handanna eru kollegar mínir, læknar, og tróna þannig á vafasömum toppnum. Þó er áríðandi að fram komi að allar stéttir hafa bætt sig verulega hvað þetta varðar frá því að sýkingavarnadeild hóf sitt árverkniátak. Vel gert!
Norrænu sjúkrahúsleikarnir verða haldnir 9-12. júní n.k. Landspítali er að þessu sinni gestgjafi leikanna. Keppt verður í fjórtán greinum, bæði hópíþróttum og einstaklingskeppni. Meðal annars verður keppt í keilu, handbolta, fótbolta, borðtennis og strandblaki. Undirbúningur hefur staðið lengi yfir, sem og þrotlausar æfingar og nú er komið að þessu - áfram Landspítali!
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson