Nýlega var tekið í notkun nýtt hjartaþræðingartæki á Landspítala Hringbraut. Það er sem oft áður Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur sem gerir okkur kleyft að fjármagna þennan mikilvæga búnað en sjóðurinn hefur stutt dyggilega við hjartalækningar á Landspítala til fjölda ára. Nú eru þrjár fullkomnar hjartaþræðingarstofur á Landspítala og við erum fyllilega á pari við þau sjúkrahús á Norðurlöndunum sem við helst berum okkur saman við. Þessi viðbót er auðvitað afar mikilvægur þáttur í auknu öryggi hjartasjúklinga enda gerum við ráð fyrir að með tilkomu þessa tækis getum við enn stytt bið þeirra sjúklinga sem þjónustu okkar þurfa á hjartaþræðingarstofu.
Birgir Jakobsson landlæknir hefur í bréfi til heilbrigðisráðherra og á vef embættisins birt álit sitt og ábendingar varðandi þróun heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi. Birgir kveður fast að orði og telur að í raun hafi þróunin verið á rangri braut um langa hríð. Ýmislegt í athugasemdum landlæknis hefur með Landspítala að gera, eðli máls samkvæmt, enda spítalinn stærsta stofnunin í heilbrigðiskerfinu. Það eru einkum hlutastörf sérfræðilækna og skortur á göngudeildarstarfsemi sem landlæknir gerir athugasemdir við. Undir hvort tveggja get ég tekið enda höfum við lagt áherslu á að sem flestir helgi sig störfum á Landspítala og raunar greitt sérstaklega fyrir það. Vissulega eru undantekningar á þessari almennu reglu, t.d. í mjög sérhæfðum sérgreinum læknisfræðinnar, en það eru einmitt undantekningar. Áhrif af umfangsmikilli sérfræðiþjónustu lækna utan spítala endurspeglast að hluta í takmarkaðri göngudeildarstarfsemi á Landspítala. Fjöldi sjúklinga með fjölkerfa vandamál og króníska sjúkdóma eykst stöðugt og sú verður þróunin næstu árin. Þörfin fyrir teymisvinnu og samvinnu margra heilbrigðisstétta mun því aukast og þessari þjónustu verður best sinnt á göngudeildum sjúkrahúsa en ekki af einyrkjum í takmörkuðum rekstri. Það var því ánægjulegt að sjá heilbrigðisráðherra taka undir sjónarmið landlæknis og mun hann boða okkur til fundar um málið fljótlega.
Í lokin vil ég vekja athygli á yfirlýsingu Landspítala vegna útboðsmála sem voru lítilega til umræðu í vikunni. Landspítali er stærsta ríkisstofnuninn og hefur í ljósi umfangs síns og fjárhagsstöðu lagt sérstaka áherslu á útboð í innkaupastefnu sinni. Flest opinber útboð sem fram fara eru á vegum Landspítala og í réttu hlutfalli eru flestar kærur vegna útboðsmála tengd spítalanum. Langflestum þessara kæra hefur kærunefnd hins vegar hafnað og Landspítali mun áfram nýta sér útboðsleiðir þar sem þær eru færar og hvetja jafnframt stjórnvöld til að beita sér fyrir því að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem fyrir eru.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið hlaðið batteríin eða standið vaktina!
Páll Matthíasson