Nýr o-bogi er kominn í notkun á skurðstofuganginum í Fossvogi. Með o-boga er hægt að gera vandasamar aðgerðir með mun meira öryggi en verið hefur. Unnt er að ná þrívíddarmyndum, líkt og með sneiðmyndatækjum, beint við aðgerðarborðið og er sjúklingur því í sömu legu í rannsókn og aðgerð.
O-boginn nýtist afar vel í flóknar hryggjaraðgerðir en hér á landi eru 60 til 70 slíkar á ári. Í meðfylgjandi myndbandi segir Björn Zoëga, sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, skurðstofuna nú eina þá fullkomnustu í Norður-Evrópu fyrir slíkar aðgerðir.
O-boginn er keyptur fyrir íslenskt skattfé en forsenda fyrir notkun hans var nýtt skurðarborð úr koltrefjum sem býður upp á góða gegnumlýsingu. Mjólkursamsalan stóð fyrir söfnuninni Mjólkin gefur styrk og gaf borðið og lyftara til spítalans. Þetta er í annað sinn sem Mjólkursamsalan styrkir Landspítala með sölu á D-vítamínbættri léttmjólk.
Mynd: Nýr o-bogi á skurðstofu í Fossvogi. Ólafur Skúlason, deildarstjóri á skurðstofum þar, Alma Möller, framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs og Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar.