Vegna upplýsinga og ummæla sem komu fram á fundi Félags atvinnurekenda um útboðsmál hins opinbera vill Landspítali koma eftirfarandi á framfæri.
Langflestum kærum hafnað af kærunefnd
Á fundinum kom fram að frá ársbyrjun 2011 til ársloka 2015 hafi verið lagðar fram 25 kærur á hendur Landspítala vegna útboðsmála. Hið rétta er að 32 kærur hafa verið lagðar fram á tímabilinu. Fjöldi kæra er þó ekki réttur mælikvarði á það hvernig ríkisaðilar uppfylla lög um opinber innkaup. Þar skiptir niðurstaða kærunefndar öllu máli. Af 32 kærum hefur 26 verið hafnað af kærunefnd. Langflestar kærurnar, eða 85%, koma frá fjórum fyrirtækjum. Þau ríkisfyrirtæki og stofnanir sem á annað borð beita útboðum við innkaup sín eru mun líklegri til að fá á sig kæru en þau sem virða útboðsskyldu að vettugi. Á sama hátt eru stærri stofnanir eða fyrirtæki einnig líklegri til að fá á sig kæru. Landspítali er einn af stærstu aðilum opinberra innkaupa á Íslandi og er spítalinn með að meðaltali 25 útboð á hverju ári ásamt fjölda verðfyrirspurna og annarra innkaupaleiða sem lög heimila.Lög hamla útboðum með öðrum þjóðum
Það hefur lengi verið í umræðunni að Íslendingar taki þátt í útboðum á lyfjum og öðrum heilbrigðisvörum með öðrum þjóðum. Að svo stöddu hamla lög um opinber innkaup og lagaumhverfi í nágrannalöndum að svo geti orðið. Landspítali hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að fella niður 18. grein a) í lögum um opinber innkaup til að greiða fyrir þessu. Greinin skyldar opinberar stofnanir að útbúa sérstakt samkeppnismat, þ.e. mat á áhrifum slíkrar samvinnu á samkeppnisumhverfi viðkomandi vöru hérlendis, vilji þær bjóða út innkaup sín á erlendum vettvangi. Undanfarið hefur það álit forstjóra Ríkiskaupa komið fram í fréttum að samkeppnismatið sé ekki jafn hamlandi og haldið er fram. Landspítali tekur ekki undir þessa skoðun. Síðustu ár hefur spítalinn, í samvinnu við Velferðarráðuneytið, unnið með öðrum Norðurlandaþjóðum að þróun innkaupasamvinnu. Oftar en einu sinni hefur verið falast eftir samvinnu annarra þjóða um útboð. Hingað til hefur ekki náðst samkomulag um slíkt þar sem hinir erlendu aðilar hafa talið 18. greinina vekja vafa um raunverulega heimild til slíks samstarf og litið svo á að sú samkeppnishindrun sem felst í íslensku lögunum geti skaðað þeirra eigin samkeppnisstöðu.Fákeppni á íslenskum markaði
Meirihluti þeirra lyfja sem sjúklingar Landspítala þurfa á að halda er keyptur inn í gegnum tvö fyrirtæki sem saman hafa umboð fyrir alla stærstu frumlyfjaframleiðendur í heimi. Augljóslega er hér um mun minni samkeppni að ræða en í nágrannalöndum okkar og í raun ríkir fákeppni á þessu sviði sem styður áhuga Landspítala á erlendri innkaupasamvinnu enn frekar. Af framansögðu má vera ljóst að skattgreiðendur og íslenskt heilbrigðiskerfi hefur allt að vinna en engu að tapa við að afnema öll höft eða hindranir eins og þær sem birtast í núgildandi lögum. Landspítali vill enn fremur benda á að þrátt fyrir að lyfjaverðskrárverð sjúkrahúslyfja hérlendis sé vissulega hið sama og lægsta lyfjaverðskrárverð á Norðurlöndum þá þýðir það ekki að raunverulegt innkaupsverð hér sé sambærilegt við lægstu verð á Norðurlöndum. Lyfjaverðskrárverð er það hámarksverð sem hver þjóð er tilbúin að greiða fyrir tiltekið lyf en raunverulegur kostnaður samfélagsins byggist ekki á því heldur því verði sem fæst með útboði. Það liggur fyrir að í mörgum tilvikum hafa stærri Norðurlandaþjóðir fengið mun meiri afslátt í útboðum en Landspítala býðst hérlendis. Það er þessi ábati sem spítalinn sækist eftir.
Heilbrigð samkeppni og hagkvæm innkaup
Að lokum hafnar Landspítali alfarið málflutningi varaformanns fjárlaganefndar á fundi Félags atvinnurekenda í gær. Hafa verður í huga að lyfjakaup lúta mjög ströngu regluverki og er því ekki hægt að bera þau saman við almenn vörukaup. Það kemur á óvart að helstu málsvarar persónu- og viðskiptafrelsis skuli, í þessu máli, leggjast á eitt um að takmarka frelsi ríkisaðila til að lágmarka kostnað samfélagsins af lífsnauðsynlegum lyfjum. Nær væri að afnema þau lagaákvæði sem hamla frjálsu flæði á vörum og þjónustu milli landa og stríða þannig gegn samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Þá má benda á að með útboðum í samvinnu við erlendar innkaupamiðstöðvar er á engan hátt verið að útiloka íslensk fyrirtæki frá þátttöku. Þessi fyrirtæki eiga alla möguleika á að taka þátt í útboðum erlendis. Þannig má spara skattgreiðendum stórfé og þau félög sem standast samkeppni eins og hún gerist í nágrannalöndunum geta áfram sinnt sínum viðskiptum. Landspítali ítrekar því enn það álit sitt að það sé í anda heilbrigðrar samkeppni og hagkvæmra innkaupa að fella á brott umrædda 18. grein laga um opinber innkaup.