Fjölbreytt notkun og stytting biðlista
Þræðingartækni hefur á undanförnum árum orðið stöðugt mikilvægari í greiningu og meðferð hjartasjúkdóma. Nýja tækið á ekki síst eftir að koma vel að gagni við fjölþætt inngrip vegna hjartsláttartruflana. Til þeirra teljast meðal annars brennsluaðgerðir, gangráðsísetningar og bjargráðsaðgerðir. Talsvert vaxandi eftirspurn hefur verið eftir brennsluaðgerðum vegna gáttatifs og biðlisti þar er mjög langur. Nýja þræðingartækið kemur sér vel við að stytta þennan biðlista. Auk meðferðar við hjartsláttartruflunum verður nýja hjartaþræðingartækið notað í kransæðaþræðingum, kransæðavíkkunum og við að koma fyrir ósæðarhjartalokum.Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur gerir Landspítala kleift að kaupa hjartaþræðingartækið en sjóðurinn hefur reynst hjartadeild Landspítala öflugur bakhjarl undanfarin ár, ekki síst við kaup á dýrari tækjum.
Umsögn
Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir, yfirlæknir hjartaþræðinga
,,Við viljum þakka Jónínusjóðnum fyrir ómetanlegan stuðning við hjartadeildina í gegnum árin, hann hefur verið mikilvægur í uppbyggingu á tækjakosti í hjartalækningum. Landspítali verður að vera samkeppnishæfur hvað varðar aðstöðu og tækjakost til að laða að sérfræðimenntað starfsfólk. Á stuttum tíma hefur nú tekist að stórbæta vinnuaðstöðuna á hjartaþræðingardeildinni. Það er liður í markvissri uppbyggingu sem hefur átt sér stað á hjartadeild Landspítala og enn eitt skrefið í því að bæta þjónustuna við hjartasjúklinga."
Mynd: Nýtt hjartaþræðingartæki tekið í notkun á Landspítala 13. maí 2016. Magnús Pétursson, fyrrverandi forstjóri Landspítala og stjórnarmaður í Gjafa- og styrktarsjóði Jónínu S. Gísladóttur, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, Jón Gísli Pálmason, sonur Jónínu, Sigfús Ingimundarson, endurskoðandi Jónínusjóðsins, Sigfús Örn Gizurarson sérfræðilæknir í hjartaþræðingu, Ingibjög Jóna Guðmundsdóttir, yfirlæknir hjartaþræðinga og Karl Andersen, yfirlæknir í hjartalækningum.
Skylt efni:
21. mars 2014
Nýtt hjartaþræðingartæki tekið í notkun á Landspítala
29. september 2001
Hjartaþræðingartækið í notkun
6. júlí 2000
25 milljónir árlega til hjartalækninga - nýtt hjartaþræðingartæki keypt