Hjúkrunarfræðingar á Landspítala kynntu störf sín og verkefni í hjúkrunarbúðum í viku hjúkrunar í maí 2016.
Sjá fleiri myndir
Í dag, 12. maí, er alþjóðadagur hjúkrunarfræðinga og ég óska öllu samstarfsfólki úr hópi hjúkrunarfræðinga heilla í tilefni dagsins!
Dagurinn er ekki valinn af neinni tilviljun enda fæddist Florence Nightingale, upphafskona nútíma hjúkrunarfræði, þennan dag árið 1820. Florence valdi sér hjúkrun að ævistarfi og innleiddi vinnubrögð, byggð á vísindalegri þekkingu, sem mörkuðu tímamót í heilbrigðisþjónustu. Hennar er gjarnan minnst sem „konunnar með lampann“ í kjölfar Krímstríðsins, hvaðan hún kom sem þjóðhetja. Arfleifð hennar er hins vegar miklu meiri og dýpri á hjúkrun og spítalastarfsemi. Hún hafði skilning á mikilvægi heildrænnar hugsunar í umönnun sjúklinga og skipulagi starfseminnar. Hennar helsta verk er „Notes on Nursing“ en „Notes on Hospitals“ er ekki síður merkilegt ritverk.
Ég hef áður sagt það að hjúkrunarfræðingar eru hryggjarstykkið í starfi hvers spítala. Það segi ég að öllum öðrum ólöstuðum enda byggir góð spítalastarfsemi á öflugri teymisvinnu. Hjúkrunarfræðingar eru eftirsótt starfsstétt um allan heim og það er verulegt áhyggjuefni, raunar ein stærsta ógn við heilbrigðiskerfið hversu fáir velja sér þennan spennandi starfsvettvang. Þetta er ekki nýtt vandamál því þegar fyrsta hjúkrunarkonan steig á land á Íslandi upp úr aldamótunum 1900 var haft á orði að þær hefðu nú þurft að vera tvær. Skortur á hjúkrunarfræðingum hefur verið viðvarandi vandamál um langa hríð og eins og staðan er liggur fyrir að það mun ekki lagast eins hratt og við vildum á næstu árin. Á sama tíma mun þörfin fyrir þjónustu hjúkrunarfræðinga aukast. Því ríður á að við á Landspítala gerum spítalann okkar að spennandi valkosti fyrir nýja hjúkrunarfræðinga og tökum vel á móti þeim í námi og starfi.
Hjúkrunarráð Landspítala hefur þessa vikuna staðið fyrir fjölbreyttri dagskrá og í byrjun vikunnar hófst veggspjaldasýning hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra sem standa mun til 23.maí. Ég hvet alla til að kynna sér metnaðarfullt vísindastarf hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á Landspítala.
Páll Matthíasson
Hjúkrunarfræðingar á Landspítala - kynning á myndböndum
Um Florence Nightingale á Wikipedia