Vala Védís Guðmundsdóttir, ljósmóðir á fósturgreiningardeild, á von á barni, gengin 29 vikur. Kristín Rut Haraldsdóttir, ljósmóðir á sömu deild, skoðaði Völu og gátu allir gestir séð frábær myndgæði sem fást með nýju tækjunum frá Minningargjafasjóði Landspítala Íslands.
Tilefni gjafarinnar var 100 ára afmæli Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands. Sjóðurinn var stofnaður árið 1916. Í fyrstu var hlutverk hans að styrkja fátæka sjúklinga til spítalavistar. Eftir tilkomu sjúkratrygginga hefur sjóðurinn styrkt sjúklinga sem ekki geta fengið fullnægjandi læknishjálp hérlendis og þurfa að fara til sjúkradvalar í útlöndum. Frá árinu 1966 hefur Minningargjafasjóður Landspítala styrkt tækjakaup á spítalanum. Tekjur sjóðsins myndast með minningargjöfum fólks sem sendir samúðarkort gegnum Póstinn og með ávöxtun höfuðstóls.
Stjórn Minningarsjóðs Landspítala Íslands í heimsókn á fósturgreiningardeild í tilefni af því að nýju ómtækin sem sjóðurinn gaf eru komin í notkun. Á myndinni eru Þorbjörg Guðnadóttir, Vigdís Jónsdóttir, Drífa Pálsdóttir formaður, Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir yfirljósmóðir, Vilhelmína Salbergsdóttir og Hildur Harðardóttir yfirlæknir.