í byrjun vikunnar fór ársfundur Landspítala fram á Hilton Nordica. Hann var afar vel sóttur og einnig nýttu fjölmargir sér þann möguleika að fylgjast með beinni útsendingu frá honum á visir.is og landspitali.is. Þetta var mjög ánægjulegt síðdegi þar sem við lögðum sérstaka áherslu á stefnu spítalans og því var sjúklingurinn í öndvegi. Flutt voru spennandi erindi um nýjungar í þjónustunni sem vöktu mikla athygli.
Það voru frábærar fréttir sem Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra flutti fundarmönnum; á ríkisfjármálaáætlun til 5 ára sem kynnt verður á næstu dögum er gert ráð fyrir milljarða fé til framkvæmda við uppbyggingu Landspítala við Hringbraut! Upptöku af fundinum má nálgast hér.
Árleg uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala, Vísindi á vordögum, hófst síðastliðinn þriðjudag. Þetta er einn mikilvægasti viðburður ársins á Landspítala enda fögnum við þar öflugu vísindastarfi og vísindamönnum. Í ár var Einar S. Björnsson, yfirlæknir meltingarlækninga, valinn heiðursvísindamaður Landspítala. Einar á að baki farsælan feril og er að sjálfsögðu enn að. Ekki er síður ánægjulegt að fylgjast með ungum vísindamönnum og í ár var það Óla Kallý Magnúsdóttir næringarfræðingur sem útnefnd var ungur vísindamaður ársins á Landspítala. Það verður spennandi að fylgjast með henni og öðrum þeim vísindamönnum sem fengu styrki í framtíðinni. Til hamingju öll!
Í dag lýkur samstarfi Sjúkratrygginga Íslands, Heilsumiðstöðvarinnar við Ármúla og Landspítala um rekstur sjúkrahótels. Samningur við Heilsumiðstöðina um dvöl fyrir einstaklinga sem ekki þurfa heilbrigðisþjónustu á sjúkrahótelinu sjálfu hefur þó verið framlengdur. Landspítali hefur að ósk ráðherra tekið við þjónustu við þá einstaklinga sem slíka þjónustu þurfa og mun reka sjúklingahótelþjónustu á Landakoti frá 1. maí þar til að sjúklingahótel rís á lóð Landspítala við Hringbraut á næsta ári. Það verða ánægjuleg tímamót.
Ég óska ykkur góðrar helgar, hvort heldur þið standið vaktina eða eða hlaðið batteríin!
Páll Matthíasson