Rannsóknarhópur við Háskóla Íslands og Landspítala, undir forystu Ásgeirs Haraldssonar og Karls G. Kristinssonar prófessora og Helgu Erlendsdóttur aðjúnkts, hefur fengið um hundrað milljóna króna framhaldsstyrk til þess að rannsaka áhrif bólusetninga gegn pneumókokkum á Íslandi. Bólusetningarnar hófust árið 2011 og hefur árangur þeirra reynst afar góður.
Rannsóknin sem um ræðir nefnist Vaccination study in Iceland (VIce) og fékk rannsóknarhópurinn upphaflega styrk úr rannsóknarsjóði fyrirtækisins GlaxoSmithKline árið 2013 sem nam um 160 milljónum króna. Með framhaldsstyrknum nema styrkir til rannsóknarinnar því um 260 milljónum króna og mun rannsóknin standa til ársins 2018.
Pneumókokkar eru bakteríur sem geta valdið ýmiss konar sýkingum. Einfaldar en algengar sýkingar eru eyrnabólgur og kinnholubólgur en bakterían getur einnig valdið lungnabólgum, alvarlegum blóðsýkingum og heilahimnubólgum. Bólusetningar gegn bakteríunni hófust í nágrannalöndum Íslands fyrir rúmum áratug en upptaka bóluefnisins tafðist á Íslandi vegna efnahagskreppunnar. Árið 2011 var bólusetningum gegn pneumókokkum bætt við ungbarnabólusetningar á Íslandi.
Rannsóknarhópurinn hefur undanfarin ár unnið að viðamiklu rannsóknarverkefni til að meta árangur bólusetningarinnar ásamt rannsóknum á ýmsum eiginleikum bakteríunnar. Verkefnið er unnið í samstarfi við háskólana í Oxford og Cambridge. Þegar hafa áhugaverðar niðurstöður verið kynntar, m.a. að alvarlegum blóðsýkingum hefur fækkað til muna eftir upptöku bóluefnisins. Þá voru nýlega birtar niðurstöður sem sýndu að í kjölfar bólusetningarinnar fækkaði komum á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins vegna eyrnabólgu og lungnabólgu.
Nýi styrkurinn, sem nemur um 100 milljónum króna sem fyrr segir, er til frekari og ítarlegri rannsókna á áhrifum bólusetninganna. Rannsakað verður hver áhrifin verða í eldri einstaklingum en mögulega fækkar alvarlegum pneumókokkasýkingum hjá þeim ef færri börn bera bakteríuna. Jafnframt verður fylgst áfram með því hvaða gerðir pneumókokka er að finna á hverjum tíma í nefkoki leikskólabarna svo meta megi mögulegar breytingar á bakteríunni. Metið verður hvort fækkun verði almennt á sýkingum hjá börnum og þá hvort dragi úr sýklalyfjanotkun þeirra, þörf fyrir röraísetningar í eyru eða kirtlatökur. Loks verður lagt mat á heilsuhagfræðilega þætti bólusetningarinnar.
Mynd: Undirritun samnings um framhaldsstyrk til þess að rannsaka áhrif bólusetninga gegn pneumókokkum á Íslandi. Efri röð: Karl G. Kristinsson prófessor, Ásgeir Haraldsson prófessor, Helga Erlendsdóttir aðjúnkt, Inga Þórsdóttir, forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, Magnús Karl Magnússon, forseti læknadeildar Háskóla Íslands, Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands. Neðri röð: Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, og Hjörleifur Þórarinsson, framkvæmdastjóri GlaxoSmithKline á Íslandi.